139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Við bankahrunið stóðu Íslendingar frammi fyrir gífurlegum ógnunum en að mínu mati líka tækifærum. Við höfðum, held ég, ólíkt öllum nágrannaþjóðum okkar sem hafa átt í erfiðleikum með sitt bankakerfi, tækifæri til að búa til nýtt bankakerfi. Í staðinn hafa stjórnvöld, að mínu mati, unnið ötullega án stefnu og án áætlunar að því að endurreisa hið gamla. Það skýrist væntanlega mjög af því sem ég nefndi áðan að ekki hefur verið mörkuð nein stefna af þessari ríkisstjórn, hvort sem hún var í minni hluta eða meiri hluta, varðandi endurreisn bankakerfisins.

Ef skoðuð er samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar kemur fram að ætlunin er að kveða á um hvernig eignarhaldi bankanna skuli hagað. Það er ætlunin að leggja fram stefnu um það hvernig eigi að endurreisa íslenska bankakerfið. Hins vegar hefur sú stefnumörkun aldrei komið í raun og veru inn fyrir fyrir dyr Alþingis. Við höfum séð þess vott í fjárlögum þar sem upphæðir hafa verið að breytast sem var ætlunin að leggja í endurreisn bankakerfisins en að það hafi komið fram áætlun, skýr stefna um hvers konar bankakerfi við viljum hafa til að þjóna hagsmunum íslensku þjóðarinnar, það hef ég ekki séð.

Í fyrirspurn sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson lagði fyrir hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um hvort væri alla vega að lágmarki búið að útbúa viðbragðsáætlun við bankaáfalli eins og ályktað var um í skýrslu þingmannanefndar Alþingis, því að fyrir bankahrun lá fyrir að það var engin viðbragðsáætlun, kom fram að hún mundi koma fram á næstu mánuðum, vonandi í apríl, en við höfum ekki enn séð votta fyrir henni.

Þegar unnið var að endurreisn bankakerfisins bárust ýmsar fréttir úr fjármálaráðuneytinu sem fór með það starf sem virtist að mestu leyti vera þannig að upphæðirnar voru að breytast en aldrei þannig að við fengjum eitthvert tækifæri til að tjá okkur um hvers konar bankakerfi við vildum. Við framsóknarmenn höfðum miklar áhyggjur af þessu því að við töldum að eitt af meginmarkmiðunum við endurreisn Íslands væri einmitt að stuðla að því að við yrðum með öflugt bankakerfi sem mundi þjóna hagsmunum Íslands. Þess vegna lögðum við fram þingsályktunartillögu þar sem við töldum að sú tillaga sem Fjármálaeftirlitið kom fram með, ekki stjórnvöld heldur Fjármálaeftirlitið, í október 2008 um að stærð nýju bankanna ætti að miða við útlán en ekki innlán, væri röng stefna. Það ætti að endurreisa hér minna bankakerfi sem væri meira í takt við landsframleiðslu og upphæð innlánanna. Þar með hefði ekki verið nauðsynlegt að gefa út skuldabréf á milli gömlu og nýju bankanna. Það hefði verið vel hugsanlegt að Fjármálaeftirlitið hefði þá haft lægri eiginfjárkröfu á bankana vegna þess að lánasöfnin hefðu verið betri, gæðin á þeim hefðu verið betri, og það hefðu þá verið meiri möguleikar á að því að einkavæða eða selja bankana í staðinn fyrir það sem við horfum upp á núna, að við erum með hrúgöld, sem meira að segja sjálfur ráðherra bankamála hefur talað um, með allt að því 60% vanskil í hinum ýmsu formum á lánum bankanna.

Bankarnir eru allt of stórir. Meðalgæðin eru of lág. Þeir hafa reynst illa samstilltir, hvort heldur horft er til gjaldeyris- eða verðtryggingarþáttarins. Þessir bankar munu seint fá hátt lánshæfismat og þeir verða seint einkavæddir. Áhætta Seðlabankans af viðskiptum við banka sem eru sligaðir af vanskilalánum er einnig mikil og peningastefna hans þar af leiðandi mjög óvirk. Gjaldþrota bankar, við verðum að horfast í augu við það, bankar sem eru í eigu þrotabúa munu seint geta stutt við fyrirtæki landsins og stuðlað að endurreisn þeirra.

Að lokum vil ég minnast á þá miklu hagsmunaárekstra sem eru til staðar hjá ríkinu sjálfu. Ríkið er nefnilega í mörgum hlutverkum. Það er í hlutverki hluthafa, kröfuhafa og eftirlitsaðila með sjálfu sér. Ég hef líka lagt mikla áherslu á að við drögum úr samþjöppun. Núna horfum við upp á það að bankarnir þrír eru með í kringum 90% markaðshlutdeild á Íslandi þannig að samþjöppun hefur bara aukist. Ég hef líka kallað eftir stefnu um það hvernig við tryggjum samkeppni á bankamarkaði og hvernig við tryggjum fjölbreytni, að fólk hafi í raun og veru eitthvert val um hvers konar fjármálastofnanir það á í viðskiptum við. Ég hef hvatt til þess að horft sé til þess að eignarhald sé fjölbreytt og gagnsætt, þar sem ríki, einkaaðilar og svokallað samfélagslegt eignarhald sjái sér hagsmuni í því að koma (Forseti hringir.) að rekstri fjármálafyrirtækja. Því vildi ég gjarnan fá svör frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um það hvers konar plan eða áætlanir hann hefur varðandi endurreisn fjármálakerfisins.