139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:34]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við erum sammála um að bankakerfið okkar er of stórt, það er visst óhagræði til staðar í rekstri þess en slíkt leiðir til of mikils vaxtamunar. Hvers konar bankakerfi viljum við hafa hér á landi? Hvers konar stefnu ætlar ríkið að framfylgja?

Ríkið hefur tvær leiðir og alþingismenn um leið. Ríkið getur gengið fram fyrir skjöldu í eigin bönkum og gætt að því að hagræði sé í rekstrinum, að ríkisbankinn sé vel rekinn. Ríkið getur svo, og alþingismenn, nýtt regluverkið til að móta starfsemina og laga hana að þörfum atvinnulífsins. Til dæmis þarf að dýpka umræðuna um hvort aðskilja beri einkabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Eigum við að setja lög þar um eða ekki?

Ég held að við verðum að gæta okkar í að tala málefnalega um bankakerfið í landinu. Það er rangt sem hefur verið fullyrt í þessari umræðu, að bankakerfið hafi verið endurreist í þágu fjármagnseigenda. Það hefði verið ákjósanlegt ef við hefðum getað endurreist bankana eins og við hefðum helst viljað og haft þá minni í umsvifum, en gætum að því að valkosturinn var sá að annaðhvort endurreistu erlendir fjármagnseigendur bankana sem þrotabú, sem sínar rekstrareiningar, eða ríkið yfirtæki þá með kostnaði upp á um 200 milljarða kr. fyrir skattgreiðendur í landinu — það hefði verið lakari kostur í þessu tilviki. Ég tel að rétt hafi verið farið að með því að endurreisa bankana undir stjórn erlendra kröfuhafa.

Ég held að samþætting starfsemi Landsbankans og sparisjóðakerfisins sé jákvætt skref í að laga bankastarfsemina að þörfum atvinnulífsins. Rekstur sparisjóðanna var erfiður fyrir hrun, styrkleiki þeirra liggur í framhlið starfseminnar en veikleikinn baka til, þ.e. kostnaðarmegin. Nýta ber þá styrkleika sem sparisjóðakerfið hefur í samþættingu þeirrar starfsemi við aðra starfsemi sem ríkið hefur undir höndum. Við þurfum að aðlaga bankakerfið á Íslandi að stærð og þörfum atvinnulífsins. Við þurfum að stilla saman strengi atvinnulífsins og bankakerfisins. Þannig náum við fram hagræðingu og ekki síður öflugri bankastarfsemi á Íslandi.