139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég verð að viðurkenna að ég beið svolítið spenntur eftir yfirlýsingu frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann talaði eins og hrunið hefði verið fyrir nokkrum dögum en ekki fyrir tveimur og hálfu ári. Hann talaði um hluti sem þarf að taka á. Eftir tvö og hálft ár er það ekki enn þá búið.

Við horfum upp á, virðulegi forseti, að það á eftir að svara grundvallarspurningum um fjárfestingar- og viðskiptabanka. Viljum við aðskilja þá starfsemi? Hvert er markmið bankakerfisins? Hver er áhættugreiningin? Hvar liggur það fyrir? Við kláruðum lög um fjármálastofnanir og spurðum þessara spurninga — og það átti að fara í það seinna. Við gengum frá lögum um sparisjóðina og öllum spurningum um þá átti bara að svara seinna. Síðan er búið að setja 250 milljarða í fjárframlög og víkjandi lán. Það er ekki enn þá búið að svara þessum grundvallarspurningum. Í dag ræðum við innstæðutryggingakerfið. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki hunskast til að fara til Brussel til að gæta hagsmuna Íslendinga í því máli. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég beið eftir því. Hann hefur tækifæri á eftir til að lýsa því yfir að hann ætli að ganga í það verk sem er búið að biðja um í rúmlega tvö ár núna.

Virðulegi forseti. Það dugar ekki að koma hingað upp og fara með sömu ræðuna og er búið að fara með í tvö og hálft ár. Það vita allir hver verkefnin eru. Það er alveg sama hvernig menn endurraða ræðunni, aðalatriðið er að við þurfum að taka á þessum málum. Vandinn er augljós og hann er miklu meiri vegna þess að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, ásamt fyrirrennurum sínum, hafa ekki tekið á þessum augljósu (Forseti hringir.) málum.