139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

endurreisn íslenska bankakerfisins.

[11:46]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þeirri spurningu var beint til mín hvernig ég sæi fyrir mér uppbyggingu fjármálakerfisins. Eins og ég rakti í upphafi máls tel ég að fjármálakerfið verði að vera í samræmi við getu heimila og fyrirtækja til þess að standa undir kostnaðinum við það. Við verðum þar af leiðandi að ætla okkur í samræmi við það hvað við erum tilbúin að leggja á heimili og fyrirtæki í kostnaði. Þar komum við einmitt að sparisjóðunum. Ég er ekki tilbúinn að endurreisa sparisjóðakerfi ef það þýðir aukaútlát fyrir heimili og fyrirtæki. Annaðhvort eiga sparisjóðirnir sér raunverulegar rekstrarforsendur á grundvelli sérstöðu sinnar eða ekki. Og ef þeir eiga það ekki er engum til góðs að halda áfram að tala um þá eins og goðumlík fyrirbæri. Þá eru þeir bara orðnir skurðgoð. Þetta mat verður bara að fara fram með mjög köldum og einbeittum hætti. Við verðum að leggja mat á það hvort þessar rekstrarforsendur séu fyrir hendi eða ekki. (Gripið fram í.) Sparisjóðir sem eiga þessar rekstrarforsendur eiga auðvitað að lifa, en það er mjög erfitt að ætla almenningi og fyrirtækjum að halda þeim uppi, með því þá að borga hærri vexti eða hærri gjöld hjá þeim en öðrum fjármálastofnunum, eða að ríkið reki þá með einhverjum hætti.

Hér spurði hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson um innstæðutryggingar. Ég hef haldið fram sjónarmiðum Íslands hvað varðar innstæðutryggingakerfið á alþjóðlegum vettvangi og ég hef gert það í Brussel. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að innleiða það innstæðutryggingakerfi sem kveðið er á um í frumvarpi og það er mikilvægt að það frumvarp verði að lögum. Neytendavernd skiptir miklu máli og þar er gætt að öllum þeim sjónarmiðum sem mestu skipta.

Hér hefur nokkuð verið talað um að stefnumótun hafi farið fram hjá þinginu. Það er ekki rétt, engin stefnumótun hefur farið fram hjá þinginu, þvert á móti hef ég veitt til þess fyrirheit að hingað komi skýrsla þar sem við getum þá rætt málið. Ég vil ekki loka þessa vinnu inni í einhverri lítilli nefnd heldur vil ég eiga þessa umræðu við þingið, að hingað komi skýrsla um framtíðarkosti í uppbyggingu fjármálakerfisins. (Forseti hringir.) Mér finnst þetta ágætishugmynd hjá hv. þm. Eygló Harðardóttur líka (Forseti hringir.) að það komi þá áætlun í kjölfarið með svipuðum hætti og jafnréttisáætlun. Ég er alveg til í að koma hér með uppbyggingaráætlun (Forseti hringir.) fjármálakerfisins í kjölfarið. En við skulum byrja á að taka greiningarvinnuna og vinna hlutina í réttri (Forseti hringir.) röð.