139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[11:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á tilskipun Evrópusambandsins og hún fjallar um mengun af ýmsum toga eins og brennisteinsmengun og annað slíkt. Nú kann að vera að einhverjir segi að þetta komi okkur ekki við, við séum hérna lengst úti í hafi og þetta skipti ekki stóru máli. En þetta skiptir okkur heilmiklu máli vegna þess að jörðin er einn hnöttur og mengun sem verður á þessu sviði, t.d. í Japan fyrir stuttu, mengun með kjarnorku, barst með ógnarhraða yfir allan heiminn á innan við þrem, fjórum dögum með loftvindum í efri lögum gufuhvolfsins. Sú mengun sem við ræðum hér, eins og t.d. brennisteinsmengun, kemur hingað til lands í einu og öðru formi, mengun af sjó sem berst með hafstraumum og mengun í lofti sem berst enn hraðar með loftstraumum.

Þetta skiptir okkur miklu máli og þetta tengist Íslandi að því leyti að Ísland er sennilega með mestu ónotuðu hreinu orku í heimi. Mannkynið þarf mikla orku, bæði vegna þess að ný ríki hafa komið inn í hóp orkuneytenda, sem eru Kína og Indland, til viðbótar við vaxandi orkuþörf gömlu iðnríkjanna og þriðja heimsins að öðru leyti. Það er spurning hvernig þessari orkuþörf verði mætt. Er það ekki skylda Íslendinga að nýta sína hreinu orku eins og mögulegt er til að minnka þessa mengun sem verður vegna þessa orkuhungurs heimsins?

Þetta tengist Íslandi að því leyti að það ætti að vera okkur hvatning, eiginlega allt að því skylda, til að virkja á Íslandi eins og mögulegt er, eins og tilhlýðilegt þykir með tilliti til náttúru. Ég skora því á hæstv. utanríkisráðherra að beita sér innan ríkisstjórnarinnar í því að menn fari nú að taka á honum stóra sínum og virkja, líka vegna þess að það skapar atvinnu, bæði á meðan á byggingu virkjunarinnar stendur — og það vantar atvinnu á Íslandi, frú forseti, það virðast ekki allir vita það — og einnig ef virkjunin er skynsamleg og orkunýtingin skynsamleg vantar fólk til að vinna við þau störf sem þar myndast. Þetta er bæði atvinnusköpun til skamms tíma og langs tíma og ég tel að þessi staðfesting varpi þeirri skyldu á Íslendinga að reyna að minnka þessa mengun í heiminum með því að nýta þær orkulindir okkar sem eru tandurhreinar og seðja orkuhungur heimsins.