139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[11:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég hlustaði af athygli á ræðu hv. þingmanns. Hann beindi til mín áskorun. Hún fólst í því að þingsályktunartillagan sem við ræðum nú yrði mér stökkbretti til þess að beita mér í ríkari mæli fyrir framkvæmdum á orkusviði á Íslandi. Ég þarf ekki sérstaka hvatningu frá hv. þingmanni til þess. Hv. þingmaður veit að ég er þeirrar skoðunar að það eigi að nýta orkulindir landsins innan þeirra hóflegu umhverfisverndarmarka sem sjálfsagt er að við höfum uppi hverju sinni. (Gripið fram í.)

Það er rétt hjá hv. þingmanni að það hafa skipst veður í heiminum núna og það er líklegt að meiri sókn verði en áður í orku af endurnýjanlegum toga eins og þá sem Íslendingar búa yfir eftir þær hamfarir sem urðu í Japan með afleiðingunum fyrir kjarnorkuiðnaðinn. Ég er sannfærður um það. Ég tel að við Íslendingar munum finna það á næstunni.

Þá kemur einmitt að því að það er nauðsynlegt eftir því sem þrýstingurinn verður meiri að nýta slíkar orkulindir að það sé gert með þeim hætti að alveg sé tryggt að það skaði engan, allra síst þá sem nýta orkuna. Hv. þingmaður gat þess að mengun bærist víðs vegar að með vindum í himinhvolfum. Það er hárrétt hjá honum. Það er meira að segja sérstök tegund af mengun sem safnast saman við norðurskautið og undir því. Menn hafa stundum talað um norðurhöfin sem eins konar kuldagildru fyrir þrávirk lífræn efni.

Það er þó ekki efni þeirrar tilskipunar sem við ræðum hér, en hitt er alveg klárt að eitt af því sem tilskipunin miðar að er að ríkin sem undir hana gangast setji reglur sem tryggi að efni sem leyst eru við nýtingu þessara jarðorkulinda skaði ekki menn. Það fer eftir eðli jarðhitalindanna. Það liggur fyrir að í sumum þeirra er losað töluvert mikið af brennisteinsdíoxíði. Það hefur verið í umræðunni á Íslandi, m.a. hefur það á síðustu þremur, fjórum árum leitt til mjög harðrar umræðu um hvort hægt sé með einhverjum hætti að koma í veg fyrir að brennisteinsdíoxíð sé losað við nýtingu t.d. jarðvarmalinda sem Íslendingar eiga. Eðli þeirra er þannig að í sumum lindanna er aðeins meira af brennisteinsdíoxíði en í ýmsum öðrum jarðvarmalindum á Íslandi.

Ég minnist þess að umhverfisnefnd Reykjavíkur gerði um það bókun á sínum tíma um að sú mengun sem af þessum rótum rennur stundum fyrir vindum, a.m.k. í úthverfum Reykjavíkur, og við höfum stundum kallað hveralykt, yrði takmörkuð. Það er sömuleiðis alveg klárt að í nærlægu kjördæmi risu miklar deilur vegna fyrirhugaðrar virkjunar af hálfu Orkuveitu Reykjavíkur sem leiddu til fjölmennra mótmælafunda, undirskrifta, áskorana og leiddu bókstaflega til þess að tiltekin virkjun, Bitruvirkjun, var sett á ís. Það var eingöngu vegna deilna um brennisteinsdíoxíð.

Ég hef þess vegna verið talsmaður þess að Íslendingar noti tækni sem er í þróun á Íslandi til að fullgera ákveðnar leiðir til þess að eyða brennisteinsdíoxíði. Það vill svo til að norður á Akureyri er háskóli þar sem menn hafa í tilraunastofum verið að rækta hitakærar örverur sem fundist hafa í neðansjávarhverum, m.a. í utanverðum Eyjafirði. Þær eru ekki loftháðar og taka alla orku sína í gegnum það að nýta og hvarfa brennistein. Sú tækni mun t.d. í framtíðinni geta leitt til þess að öllu brennisteinsdíoxíði sem kemur úr íslenskum hverauppsprettum og við nýtingu á íslensku jarðhitavatni verður ekki bara hægt að eyða heldur skapa úr því verðmæti með því að framleiða í krafti þessara baktería svo tárhreinan brennistein að eftir honum verður sóst til annarrar iðnaðarframleiðslu í heiminum. Þannig er hægt með sérstökum aðferðum, sem Íslendingar hafa í reynd haft frumkvæði að, bæði að virkja jarðhitalindirnar sem við ræðum hér, fjarlægja mengunina sem við tölum um að setja sérstakt regluverk um og breyta brennisteinsdíoxíðinu yfir í afurð sem skapar verðmæti.

Svona eru nú hlutirnir oft skrýtnir en það má segja að reglugerð eins og við tölum um að þurfi að setja til þess að halda losun á því tiltekna efni sem ég hef gert að umræðuefni, innan hæfilegra marka til að hún skaði ekki heilsu manna og dýra, geti í sjálfu sér verið þrýstingur á að halda áfram að virkja viðkomandi orkulindir en um leið að skapa ný verðmæti sem menn gerðu sér ekki grein fyrir að hægt var áður en þeir réðust til verksins. Ég er því sammála hv. þingmanni um að þessi þingsályktunartillaga getur bæði verið hvati til að menn setji í auknum mæli kraft í að virkja þessa möguleika og sömuleiðis til að af spretti ný tækifæri.