139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[12:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ræða hæstv. ráðherra hljómaði sem englasöngur í mínum eyrum og væri mjög gleðilegt ef hann væri ekki svo vanmáttugur innan hæstv. ríkisstjórnar að ekkert af þessu kemst í framkvæmd. Nú hefur ríkisstjórnin starfað í rúm tvö ár og það er ekkert að gerast í orkumálum, ekki neitt. Það sem hann nefndi um brennisteinsvinnslu úr brennisteinsdíoxíði með aðstoð baktería er einmitt dæmi um mannauð. En stefna ríkisstjórnarinnar veldur því að mannauðurinn er að sigla til útlanda. (Gripið fram í: Hann er ekkert að flytja …) Við erum að flytja út mannauð sem er alveg stórhættulegt.

Það sem hæstv. ráðherra nefndi um aukaafurð þegar menn berjast gegn mengun er einmitt það sem oft kemur í ljós þegar menn menga minna, þá koma fram önnur verðmæti eins og t.d. brennisteinn.

Ég kom inn á þetta mál allt saman vegna þess að í Evrópu er t.d. verið að brenna brúnkolum og kolum í stórum stíl til framleiðslu á raforku sem veldur brennisteinsmengun og annars konar mengun af ýmsu tagi. Við Íslendingar gætum t.d. virkjað og flutt út orku í gegnum streng og aðstoðað Evrópu við að seðja orkuhungur sitt. Þannig gætum við leyst þann vanda.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig stendur á því að hann er svona vanmáttugur innan ríkisstjórnar sinnar? Af hverju gerist ekki neitt þótt hann vilji virkja og það sé skynsamlegt að öllu leyti?

Ég minni á það að Kárahnjúkavirkjun — ég fékk svar við því einu sinni — sparar mannkyninu sem svarar fjórfaldri allri mengun Íslendinga af umferð, þ.e. vegna þess að við virkjuðum við Kárahnjúka.