139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 149/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

620. mál
[12:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að utanríkisráðherra er valdalítill ræfill og fær litlu framgengt en hefur svolítil áhrif í sínum takmarkaða málaflokki sem aðallega er þó fyrir utan efnahagslögsöguna. (Gripið fram í.) Hitt vil ég þó segja hv. þingmanni, af því að við vorum að ræða tiltekið efni sem varðar nýtingu nýrrar aukaafurðar með nýrri tækni sem þróuð var hér á landi, að upphaf þess máls má rekja til þess að þá var iðnaðaráðherra annar á dögum sem reyndar fer nú með utanríkismál og styrkti mjög rækilega þá hugmynd sem fram kom í tengslum við rannsókn á þeim hitakæru neðansjávarörverum sem eru lykillinn að þessu. Ég hef því kannski lagt mitt örlitla lóð á þann pundara líka.

Hv. þingmaður talar um að ekkert sé að gerast í virkjanamálum en hann veit að heil virkjun bíður þess að verða reist, með öll leyfi til reiðu. Sömuleiðis veit hann að fyrir norðan eru miklar orkulindir og miklu meiri en ég tel að fram komi í opinberum textum. Ég er að tala um Þeistareyki. Svo vill til að Landsvirkjun hefur lýst því yfir að hún hafi mikinn hug á að flýta virkjun þar. Hafnarfjarðarbær og ýmsir aðilar eru í viðræðum um að virkja í Krýsuvík þar sem hægt væri að nýta þær hitakæru, óloftháðu bakteríur til að vinna brennisteinsauð til framtíðar, eins og menn gerðu reyndar á þeim stöðum á Íslandi fyrir 200–300 árum en með allt öðrum aðferðum. Það er því ákaflega margt á döfinni.

Svo bendi ég hv. þingmanni á — ég veit ekki hvort hann situr í hv. iðnaðarnefnd en þar voru menn að ljúka afgreiðslu rammaáætlunar. Hún kemur væntanlega senn inn í þingið. Á grundvelli hennar er ég viss um að þar megi finna einn eða tvo framkvæmdakosti.