139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[12:56]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kann vel að vera að margir merkir menn hafi velt fyrir sér hvernig eigi að þýða orðið „body“. Við erum hér í þingsal. Ætli hann sé ekki kallaður þingmannahópur, sá hópur þingmanna sem þennan sal skipar? Það má líka alveg kalla það hlot þingmanna því að á ensku væri það væntanlega „body“. Menn mundu skilja það upp á enska tungu, en ég er ekki viss um að menn mundu skilja þingmannahlot. Þingmannahóp, þingmannaheild mundu menn — (Gripið fram í.) já, Skotar mundu kannski skoða það.

Þessar hugleiðingar hv. formanns nefndarinnar vekja hjá mér áhuga á því að afla mér betri upplýsinga um höfunda eða höfund, uppruna og tilurð orðsins heildar sem er fallegt íslenskt orð og hefur áreiðanlega verið notað mjög lengi. Ég mun nota matarhléið til að kynna mér það betur.

Það kann vel að vera að líftími orða fari að einhverju leyti eftir því hverjir semja þau, en líftími orða fer líka eftir því hversu skýr og auðskiljanleg þau eru og hversu vel þau falla að íslensku máli. Þegar verið er að leita uppi ný orð í stað annarra sem fyrir eru, skýr og auðskiljanleg, tel ég að menn séu að sóa tíma sínum og eigi að nýta hann til annarra og þarfari verka.