139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[13:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta snertir ekki beint það efni sem við fjöllum hér um. Engu að síður tengist það efninu vegna þess að við erum að fjalla um áhrif frá Evrópusambandinu á íslenskt efnahagslíf og alveg sérstaklega á fjármálafyrirtækin og það eru einmitt fjármálafyrirtækin sem voru mergsogin innan frá, voru holuð innan frá með raðeignarhaldi og hringeignarhaldi. Ég sé ekkert sem hefur lagað þá stöðu, ekkert. Það eru reglur sem gilda um allan heim, þetta er ekki bara íslenskt fyrirbæri.

Ef menn ætla að bera þá von í brjósti að innlendir aðilar eða einstaklingar fari að fjárfesta í hlutabréfum aftur, eftir að hafa verið hlunnfarnir á þann hátt að 60 þúsund heimili töpuðum 80 milljörðum, venjulegt fólk, þarf að vinna hratt og vel að því að breyta þessum reglum. Helst væri þá að snúa sér einmitt til þeirra aðila sem senda okkur þessar tilskipanir og benda þeim á hvað þær eru gallaðar eins og innlánstryggingartilskipunin og reglurnar um hlutafélög.

Ég tel mjög brýnt að fá einstaklinga til að fjárfesta í atvinnulífinu vegna þess að ekki gera útlendingar það. Við verðum að setja fjárfestingar í gang í landinu og þess vegna kem ég að þessu og bendi hæstv. ráðherra á að hann verður að taka á honum stóra sínum og laga þessa stöðu.