139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[14:26]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er fagnaðarefni að heyra yfirlýsingu hv. þingmanns um Pollinn á Akureyri, það fallega svæði. Til að hnykkja á okkar miklu samstöðu lýsi ég því yfir að ég treysti því að hv. þingmaður muni aldrei kalla Dalvíkina, þá fögru vík, með fegursta útsýni til suðurs á landinu, Dalvíkurhlotið. Við erum sammála um það.

Ég tek heils hugar undir orð hv. þingmanns um það hvernig þessi mál ber að, sérstaklega að því sem lýtur að tilskipun sem þessari. Það er fullkominn samhljómur í afstöðu okkar og orðum til þess með hvaða hætti þessi mál á að bera að til þingsins. Það höfum við, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í umhverfisnefnd, margítrekað og ég fagna því að við höfum mikla samstöðu um þetta því að þess eru dæmi að Alþingi hafi ekki gengið nægilega vel frá innleiðingu tilskipana vegna þess að verklag vantaði eða var ekki virt. Ég treysti því að við getum lagt krafta okkar saman í því efni að bæta úr þessum vinnubrögðum og gera ríkari kröfu til ráðuneytanna þegar þau koma með jafnflókin og -viðamikil mál inn til Alþingis.

Svo ég skýri þá spurningu sem borin var upp áðan er ég alfarið andvígur því að þingi sé þrýst niður með þeim hætti. sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefndi um tímapressuna á þingi. Ég geri ráð fyrir því að þau vinnubrögð sem við höfum átalið við gagnaundirbúning fyrir þingið stafi m.a. af því að menn hafi gefið sér of knappan tíma í ljósi einhverra dagsetninga sem við höfum ekki fengið fullnægjandi skýringar á.