139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan beindi ég þessu máli til forseta fyrir hádegishlé. Ég hélt satt best að segja að forseti hefði nýtt hádegishléið til að kanna hvort ekki yrði komið til móts við óskir mínar, og ég heyri líka fleiri þingmanna, til að við þingmenn verðum upplýst um það hver gangur mála er í kjaraviðræðum og þessum umfangsmiklu tillögum — sem vonandi eru umfangsmiklar.

Ég sit í samráðshópi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins sem á að koma með tillögur um vinnumarkaðsaðgerðir og menntamál, hvernig á m.a. að koma fólki sem er atvinnulaust til vinnu. Það lá mjög á, fundurinn átti að vera á þessum tíma, kl. hálfþrjú í dag, en það lá mjög á og fundinum var flýtt, settur á fyrir hádegi til að allar tillögur yrðu tilbúnar fyrir þessa fundi sem ríkisstjórnin á núna með aðilum vinnumarkaðarins. Ég tel eðlilegt að við sem erum á þingi fáum upplýsingar um stöðu mála, um þær tillögur sem fela það vonandi í sér að hagvöxtur aukist hér á ný og atvinnuleysi minnki þannig að hagur heimilanna þegar á heildina litið (Forseti hringir.) vænkist þegar til lengri tíma er litið.