139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[14:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég tek til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að ég vil að hér verði sett af stað sérstök umræða um þetta efni. Það skiptir verulegu máli fyrir þjóðina. Fyrsta skrefið gæti verið að kalla saman þingflokksformenn og boða síðan til utandagskrárumræðu eða að forsætisráðherra gefi þinginu skýrslu. Við erum hérna á löggjafarsamkundu þjóðarinnar sem setur lög. Það er dálítið ankannalegt að menn úti í bæ setji lög sem við eigum svo að samþykkja og jafnvel standa í fjárútlátum fyrir ríkissjóð þar sem Alþingi er fjárveitingavald. Ég skora á hæstv. forseta sem er fulltrúi þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu að fara í gang með þessi skref og að við fáum að ræða þessar tillögur strax.