139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[14:44]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla hér í ræðu minni tengt þessu innstæðutryggingamáli að rekja aðeins stöðu þess máls í heild og víkja aðeins að nefndaráliti og fleiru.

Hlutverk innstæðutryggingakerfa er að tryggja almenna innstæðueigendur fyrir skakkaföllum af völdum greiðsluþrots innlánsstofnana. Innstæður eru þeir fjármunir sem einstakir viðskiptavinir hafa yfir að ráða til að mæta skammtímaskuldbindingum sínum en án aðgangs að þeim fjármunum gæti myndast öngþveiti í efnahagslífinu þar sem heimili og fyrirtæki gætu ekki staðið skil á reglubundnum greiðslum. Það má því segja að aðgangur að þessum innstæðum sé í raun grundvöllur þess að greiðslumiðlunarkerfi í landinu virki og ekki myndist lausafjárkreppa með tilheyrandi vanskilum.

Ég ítreka, virðulegi forseti, að tilgangur innstæðutryggingakerfa er því ekki sá að vernda innstæður stærri fjárfesta, fagfjárfesta eða stofnana á fjármálamarkaði eða opinberra aðila sem geta byggt á eigin fjárhagslegum styrk, heldur að vernda hinn almenna innstæðueiganda.

Hér er til umræðu frumvarp sem tekur m.a. mið af nýrri tilskipun frá Evrópusambandinu um innstæðutryggingar sem samþykkt var árið 2009, en meginbreytingar eru þær helstar að lágmark tryggðra innstæða var hækkað í 100 þúsund evrur og tímafrestur sem innstæðutryggingakerfi hafa til útborgunar við greiðsluþrot er styttur úr 5–8 mánuðum í 20 daga. Markmið hvorrar tveggja er að styrkja rétt hins almenna innstæðueiganda.

Í tillögum er enn fremur kveðið á um að tryggingarsjóðir skuli hafa náð lágmarksstærð árið 2020 og að iðgjaldið skuli samansett af grunniðgjaldi og iðgjaldi sem endurspeglar áhættu í rekstri viðkomandi innlánsstofnunar. Sömuleiðis er verið að hraða greiðslum inn í innstæðutryggingarsjóðinn til að styrkja grunn hans.

Virðulegi forseti. Það er óraunhæft að stefna að því að byggja upp innstæðutryggingarsjóð sem getur mætt stærsta hugsanlega kerfisáfalli. Ef svo væri má áætla að í sjóðnum þyrftu að vera um 400–600 milljarðar kr. miðað við núverandi umfang innstæðna og mörk hámarkstryggingar. Heildarinnlán eru um 1.500 milljarðar kr. og miðað við ákvæði frumvarpsins um tryggðar innstæður gætu þær verið um þriðjungur heildarinnlána eða einhvers staðar á bilinu 400–600 milljarðar.

Í þessu sambandi vil ég ítreka að í raun er ábyrgðakerfi um innstæður samansett af fjölmörgum varnarlínum eða þáttum. Í fyrsta hring er ákvæði laga um fjármálafyrirtæki sem ætlað er að tryggja traustan rekstur þeirra og við tókum verulega á í lögum nr. 75/2010, um fjármálafyrirtæki. Í öðru lagi er ákvæði laga um hlutverk Fjármálaeftirlits sem sömuleiðis hafa verið endurskoðuð á þessum vettvangi nýverið. Í þriðja hring svokölluðum er eftirlit Seðlabanka með öryggi kerfisins í heild, fjármálastöðugleika, sem er ætlað að koma í veg fyrir að erfiðleikar í rekstri einstakra fjármálafyrirtækja leiði til falls annarra fyrirtækja eða raski efnahagslegu öryggi ríkisins.

Eins og ég sagði hefur löggjöf á öllum þessum sviðum verið eða verður á næstu missirum endurbætt í ljósi efnahagshrunsins með það fyrir augum að bregðast við þeim ágöllum sem í ljós komu. Frekari úrbætur munu að öllum líkindum verða gerðar á næstu missirum, m.a. í ljósi þess endurmats sem nú stendur yfir á vettvangi alþjóðlegra eftirlitsaðila.

Með tilliti til allra þessara öryggisráðstafana verður að áætla að líkur á kerfisáfalli, þ.e. falli eins eða fleiri af stærstu fjármálafyrirtækjum landsins, séu afar litlar. Gerist slíkt engu að síður yrði að mæta því með inngripum af hálfu ríkisins hvort sem er, enda væri þá efnahagslegt öryggi ríkisins í hættu.

Mig langar í þessu sambandi að rifja upp fyrir þingheim helstu breytingar sem gerðar voru á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 75/2010, en þar er byggt m.a. á skýrslu Kaarlo Jännäri frá mars 2009 þar sem við lögðum til fjölmargar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar voru Fjármálaeftirlitinu færðar auknar eftirlitsheimildir. Þar var aukin ábyrgð á hlutverki innri eftirlitsdeilda og áhættustýringar. Þar var kveðið á um sérstaka skrá um stærri lántakendur, en skráin er mikilvægt verkfæri til að unnt sé að tengja saman aðila og leggja mat á kerfislæg áhrif komi til erfiðleika í rekstri þeirra. Þá var skerpt á ákvæðum um heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Lögð voru til ákvæði um meðferð upplýsinga um viðskiptamenn. Þrengd voru nánar skilyrði fjármálafyrirtækja til þess að mega eiga eigin hluti. Bann var lagt við lánveitingum með veði í eigin hlutabréfum eða stofnfjárbréfum. Settar voru þröngar skorður við lánveitingar til stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og lykilstarfsmanna. Fjármálaeftirlitið setur nú reglur um hvernig lán sem tryggð eru með veði í eignarhlutum í öðrum fjármálafyrirtækjum skuli koma til útreiknings á áhættu og eiginfjárgrunni. Skýrðar voru og þrengdar reglur um stórar áhættuskuldbindingar. Þá voru auknar heimildir Fjármálaeftirlitsins til þess að snúa við sönnunarbyrði við mat á þeim sem hyggjast eignast eða auka við virkan eignarhlut. Þá voru auknar kröfur til stjórnarmanna, ábyrgð þeirra á eftirliti með rekstri aukin, og bann var sett við starfandi stjórnarformönnum. Þá voru auk þessa settar reglur um viðskipti fjármálafyrirtækja við starfsmenn og settar reglur um hvernig standa eigi að hvatakerfum, kaupaukakerfum og starfslokasamningum.

Með þessu vil ég, virðulegi forseti, leggja áherslu á að við höfum svo sannarlega styrkt mikið löggjöf um fjármálafyrirtæki heilt yfir, enda er ljóst að með nýjum innstæðutryggingarsjóði verður ekki gerlegt að verja hér fyrir allsherjarkerfisáfalli með þessum sjóði en hins vegar er nauðsynlegt að koma á nýjum innstæðutryggingarsjóði til að geta brugðist við áföllum minni fyrirtækja og koma til móts við aðrar athugasemdir sem t.d. eru gerðar í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Það er ljóst að með þessu frumvarpi er komið til móts við öll helstu atriði sem gerðar voru athugasemdir við við umfjöllun rannsóknarskýrslunnar. Sem dæmi má nefna fyrirkomulag við útreikning á árlegum iðgjöldum sem t.d. leiddu til þess að inngreiðslur í sjóðinn héldu ekki í við þá aukningu innlána sem varð á árinu 2006–2008. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að iðgjöld séu reiknuð út og innheimt fjórum sinnum á ári og séu ávallt miðuð við upphæð innlána síðustu þrjá mánuðina á undan. Auk þess er bætt við áhættuvegnu iðgjaldi eftir nánari reglum og hlutfallslega sem tekur mið af áhættuveginni starfsemi viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Þá er gert ráð fyrir mun virkara eftirliti stjórnar tryggingarsjóðsins og reglubundnum samskiptum og miðlun upplýsinga á milli stjórnar sjóðsins, Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands. Þá er lagt hér til að skipuð verði þriggja manna stjórn sem er óháð innlánsstofnunum, en í rannsóknarskýrslu Alþingis voru gerðar verulegar athugasemdir við hin nánu tengsl á milli formanns stjórnar sjóðsins og viðskiptaráðuneytisins. Mikilvægt er að hafa þetta í huga, við erum hér að draga verulegan lærdóm af rannsóknarskýrslu Alþingis.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að árið 2020 verði sjóðurinn orðinn 4% af heildarinnlánum, þó nokkuð hærra en viðmiðunartala Evrópusambandsins. Það eru um 50 milljarðar kr. miðað við tryggð innlán.

Það er óumdeilt, virðulegi forseti, að tryggingarsjóður, þ.e. A-deild hans sem hér er verið að stofna, byrjar á núlli. Engir fjármunir eru til í sjóðnum til að mæta áföllum sem kynnu að ríða yfir en allt fé sjóðsins, þ.e. gamla tryggingarsjóðsins, er eyrnamerkt skuldbindingum Icesave. Það er og verður pólitísk ákvörðun hversu hratt tryggingarsjóðurinn byggist upp, hér er verið að leggja til að fyrstu tvö árin verði um 7 milljarðar kr. greiddir úr bankakerfinu inn í innstæðutryggingarsjóðinn en síðan muni árlegt gjald lækka eftir því sem fjárhagslegur styrkur innlánsstofnana vex. Iðgjöld gætu eigi að síður tæplega orðið lægri en 4 milljarðar á ári. Með þessu móti er verið að koma til móts við viðmiðunarpunkt tillagna framkvæmdastjórnar um að sjóðurinn hafi náð lágmarksstærð árið 2020.

Það er ljóst að nokkurn tíma mun taka að byggja upp innstæðutryggingarsjóðinn. Hann verður vanburða fyrstu árin einmitt á því tímabili sem mest kann að reyna á hann vegna óvissu um styrk fjármálakerfisins, mikillar skuldsetningar ríkissjóðs og hugsanlegs óróa vegna afnáms takmarkana á gjaldeyrisviðskiptum. Bregðast má við því með ýmsum hætti. Tveir kostir koma þar fyrstir upp. Annars vegar með ábyrgð ríkissjóðs á það sem á hverjum tíma vantar upp á að sjóðurinn nái lágmarksstærð og að sú ábyrgð félli svo niður þegar þeirri stærð yrði náð. Það mætti því velta upp í því sambandi að innlánsstofnanir greiddu ríkisábyrgðargjald fyrir það sem upp á vantar. Hinn kosturinn, sem hlýtur að koma til skoðunar, er að sameiginleg ábyrgð innlánsstofnana verði á því sem upp á vantar að sjóðurinn nái lágmarksstærð, hlutfallslega þá eftir innlánahlutdeild þeirra þangað til sjóðurinn hefur náð þeirri lágmarksstærð sem við er miðað. Báðir þessir kostir draga úr áhættu innstæðueigenda meðan sjóðurinn er í uppbyggingu.

Inn í þetta frumvarp spilar yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 3. febrúar 2009 um ábyrgð á innlánum, en hún bindur ábyrgðina við tryggingavernd eins og hún er skilgreind í gildandi lögum, þ.e. þeim lögum sem hér er lagt til að breytt verði. Yfirlýsingin er svohljóðandi, með leyfi virðulegs forseta:

„Ríkisstjórn Íslands áréttar að innstæður í innlendum viðskiptabönkum, sparisjóðum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu.

Með innstæðum er átt við allar innstæður almennra sparifjáreigenda og fyrirtækja sem trygging innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda tekur til.“

Það ber að athuga hér, virðulegi forseti, að við erum að breyta þessari skilgreiningu og þar með að draga að einhverju leyti úr þeirri alhliða yfirlýsingu sem ríkisstjórnin gaf vorið 2009. Það er nefnilega eðlilegt að ríkisstjórn endurskoði yfirlýsingu sína um ábyrgð á öllum innlánum þegar þetta frumvarp verður að lögum til að taka af öll tvímæli um inntak hennar í ljósi þess að lögin sem hún miðar við hafa tekið breytingum.

Við þurfum að stíga varlega til jarðar í þessu sambandi því að tímasetningar áfanga við að draga úr ábyrgð ríkissjóðs á innstæðum eru þó tengdar öðrum mikilvægum þáttum sem snerta tiltrú á endurreisn fjármálakerfisins, svo sem ákvörðun um afnám gjaldeyrishafta. Markmið stjórnvalda er enn sem fyrr að ríkisábyrgð á innstæðum verði afnumin um leið og aðstæður skapast til þess. Með þessu frumvarpi er verið að skapa gríðarlega mikilvægan grundvöll til þess að hægt sé að afnema þessa yfirlýsingu.

Í frumvarpinu eins og það kom frá ráðherra var tillaga um 1% iðgjald en síðan hefur viðskiptanefnd og umsagnaraðilar legið verulega yfir frumvarpinu og skoðað það frá öllum hliðum. Iðgjaldaprósentan hefur nú verið lækkuð. Það var mat viðskiptanefndar og að ég held allra nefndarmanna að um væri að ræða of miklar álögur á bankastarfsemina og erfitt væri fyrir bankana að innheimta svo há iðgjöld því að þau mundu koma frá viðskiptavinum bankanna í gegnum vaxtamun, en um var að ræða 20–30 milljarða kr. á ári. Nú hefur prósentuhlutfallinu verið breytt og ég held að það sé til hins betra. En um almennt iðgjald í 2. mgr. 10. gr. frumvarpsins eins og það kemur breytt frá meiri hluta viðskiptanefndar segir, með leyfi forseta:

„Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd skv. 14. gr. …“

Gjalddagar eru fjórir á ári, í lok hvers ársfjórðungs, og greiðast hverju sinni 0,075%. Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum um heildarfjárhæð innstæðna í bankakerfinu er því áætlað að almenna iðgjaldið þannig reiknað muni skila tryggingarsjóðnum um 4 milljörðum kr. á ársgrundvelli.

Til viðbótar þessu verður þar með markaðshlutdeilartengda iðgjaldið, sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu, fellt niður en eftir standa almennt iðgjald og áhættuvegið iðgjald.

Sá samráðshópur sem var skipaður fulltrúum fjármálafyrirtækja, fulltrúum ráðuneytisins og fleirum á fyrstu mánuðum þessa árs var einhuga um að áhættuvegna iðgjaldið væri eitt og sér nægilega gott til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, þ.e. að innlánsstofnanir greiði því hærra iðgjald sem starfsemi þeirra telst fela í sér meiri áhættu fyrir tryggingarsjóðinn.

Rétt er að halda því til haga þegar rætt er um iðgjöld til tryggingakerfisins og möguleika þess til að standa við skuldbindingar sínar að ráðstöfunarfé sjóðsins takmarkast ekki við handbært fé hans, en í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að heimild sjóðsins til lántöku, og jafnvel þótt veita þurfi sjóðnum einhvers konar bakábyrgð ríkissjóðs til þess að hann ætti kost á lánsfé á ásættanlegum kjörum hefur sjóðurinn möguleika til að standa undir töluverðum afborgunum.

Mig langar að víkja næst að tryggingavernd innstæða vegna lífeyrissparnaðar, en frjáls einstaklingsbundinn lífeyrissparnaður er í daglegu tali nefnist séreignarsparnaður eða viðbótarlífeyrissparnaður byggist á ákvæðum laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Slíkur sparnaður er ýmist í vörslu lífeyrissjóða, banka, sparisjóða, verðbréfafyrirtækja eða líftryggingarfélaga. Lífeyrissparnaður getur farið inn á bundinn reikning eða til kaupa á sparnaðartryggingu en iðgjöld greiðenda eru í öllum tilvikum eign hans. Sé iðgjaldi ráðstafað til kaupa á tryggingu er greiðandinn sá sem nýtur tryggingaverndar. Ekki er samræmt utanumhald á þessum reikningum. Í sumum tilvikum eru stofnaðir reikningar á nafni hvers einstaklings en í öðrum eru stofnaðir safnreikningar sem eru skráðir á nafn vörsluaðila. Þar er haldið utan um eign hvers og eins, þ.e. hlutdeild hans, í undirkerfum viðkomandi fjármálafyrirtækis.

Eins og frumvarpið leit út þegar það var fyrst lagt fram haustið 2009, sem sýnir glögglega allan þann tíma sem viðskiptanefnd hefur legið yfir þessu frumvarpi, fyrsta frumvarpið sem núverandi viðskiptanefnd tók á tók ekki á þessari sérstöðu reikninga vegna lífeyrissparnaðar. Eftir umfjöllun í nefndinni og að fenginni umsögn þeirra sem bjóða upp á séreignarsparnað lagði nefndin til breytingu á skilgreiningu á innstæðum til að komast til móts við óskir vörsluaðila um að þeir sem valið hafa hreina innlánsleið eigi kost á því að njóta verndar tryggingakerfisins, burt séð frá því hvort reikningar eru skráðir á nafn innstæðueigenda eða á nafn vörsluaðila og þá sem safnreikningar. Frumvarp það sem lagt var fram síðasta haust var í samræmi við þessa breytingartillögu.

Það kom hins vegar ekki til umræðu í viðskiptanefnd þegar frumvarpið var til meðferðar á fyrra þingi, þ.e. 138. þingi, að skilgreina blandaðar ávöxtunarleiðir séreignarsparnaðar sem innstæður, þ.e. þá hluta blandaðra leiða sem eru innstæður. Það var fyrst við umfjöllun á þessu þingi sem hugmyndin um slíkt kom fram og ljóst að ef tryggt er að aðskilja má innstæðuhluta blandaðra leiða frá öðrum hlutum viðkomandi ávöxtunarleiða ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að taka tillit til óska þar um.

Í tillögum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eins og þær liggja fyrir er gert ráð fyrir samræmdum reglum á Evrópska efnahagssvæðinu um hvaða innstæður skuli ekki njóta verndar og ekki er gert ráð fyrir að innstæður lífeyrissjóða njóti verndar. Með vísan til þessa er lagt til að lífeyrissjóðum verði bætt við þá upptalningu sem finna má í 14. gr. frumvarpsins, en slíkt hefur ekki áhrif á réttindi þeirra sem eiga hlutdeild í hreinum innlánsleiðum vörsluaðila lífeyrissparnaðar, samanber skilgreiningu á hugtakinu innstæða. Þess vegna er lögð til eftirfarandi breyting á 14. gr., með leyfi virðulegs forseta:

„Við 1. mgr. bætist nýr töluliður,“ — 8. tölul. — „svohljóðandi: innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun, sbr. 2. tölul. 2. gr.“

Í frumvarpinu er í skilgreiningu á innstæðu sérstaklega tilgreint að peningamarkaðsinnlán teljist ekki til innstæðna. Sama á við um hin svokölluðu heildsöluinnlán. Þessi innlán hafa nú þróast og eru orðin veigamikill þáttur í fjármögnun bankanna. Slík samningsform voru upphaflega kynnt og nýtt sem skammtímafjármögnun eða fjárfesting fyrir stærri fjárfesta. Þau hafa hins vegar þróast þannig að þau standa nánast öllum viðskiptavinum innlánsstofnana til boða. Áfram er gerð krafa um lágmarksbinditíma og lágmarksinnstæður en þau mörk hafa verið lækkuð þannig að almenningur notar þessa reikninga sem almennt sparnaðarform.

Samkvæmt frumvarpinu eru peningamarkaðsinnlán tilgreind með þeim hætti að þau eru líkari hefðbundnum lánasamningi á milli tveggja aðila en hefðbundnu innláni, þ.e. fjármagnseigandi lánar fjármálafyrirtæki tiltekna fjárhæð til tiltekins tíma með tilteknum kjörum. En sú skilgreining er ekki í samræmi við það sem nú tíðkast í raun og veru.

Í áðurnefndum samráðshópi voru skiptar skoðanir á því hvort fella ætti peningamarkaðsinnlán undir skilgreiningu innstæðna eða utan. Það var niðurstaðan að rétt sé að fella peningamarkaðsinnlán almennra innstæðueigenda undir vernd tryggingakerfisins — ég vek athygli á orðunum „almennra innstæðueigenda“ — m.a. til að raska ekki stöðu bundinna skammtímainnlána almennra innlánseigenda í dag. Jafnframt er talið að þörf sé á því að skilgreina heildsöluinnlán með skýrari hætti til að ljóst sé að innlán þar sem samið er sérstaklega um kjör og tímalengd falli undir þá skilgreiningu. Er þessa vegna lögð til eftirfarandi breyting á skilgreiningu, með leyfi virðulegs forseta:

„2. Innstæða: Inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærsla í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, peningamarkaðsinnlán, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.“

Svo segir í 11. tölul. að heildsöluinnlán séu innlán þar sem samið hefur verið sérstaklega um kjör og tímalengd viðkomandi innlána annaðhvort beint við viðkomandi innlánsstofnun eða fyrir milligöngu miðlara á peningamarkaði. Slík innlán standa almennum sparifjáreigendum almennt ekki til boða og skilmálar eru ekki staðlaðir.

Virðulegi forseti. Nú á ég rétt um eina mínútu eftir af tíma mínum hér en ég hef ekki lokið umfjöllun minni um þetta mál og mun því óska eftir því að fara aftur á mælendaskrá.

Að lokum vil ég geta þess að nefndin breytti örlítið þeirri skilgreiningu hvaða fyrirtæki teljast í eigu fjármálafyrirtækja verði þrengd frá því sem er í frumvarpinu, en í 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. er tilgreint að fyrirtæki þar sem innlánsstofnun fer með virkan eignarhlut njóti ekki verndar, en virkur eignarhlutur miðast við 10% eignarhlut eða atkvæðisrétt. Lagðar er til eftirfarandi breytingar á 3. tölul. sem miðast við rýmri mörk. Þar segir, með leyfi forseta, að 3. tölul. 1. mgr. 14. gr. orðist svo: „innstæður fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi.“

Ég ítreka, virðulegi forseti, að ég óska eftir því að komast aftur á mælendaskrá til að klára umfjöllun mína um þetta efni.