139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:16]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst skorta svolítið á hjá þeim sem gagnrýna hvað harðast þetta frumvarp sem lýtur að því að hraða iðgjaldaaukningunni að skilgreina nánar hvað eru innstæður sem ber að vernda o.s.frv. Það eru fjölmargir góðir þættir til að betrumbæta kerfið, byggðir á lærdómnum af hruninu, en þeir þurfa þá að benda á eitthvað sem raunverulega getur komið í staðinn. Þeir hafa helst (Gripið fram í.) bent á einhvers konar samevrópskt kerfi sem ber að líta til sem við gætum gerst þátttakendur í. Mér þykir það einkennilegur málflutningur hjá þeim sem hvað harðast berjast gegn því að Íslendingar taki þátt í evrópskri samvinnu á öðrum sviðum og hafa t.d. komið hatrammlega í andsvör og mótmælt mínum málflutningi um að kannski væri hyggilegt fyrir okkur að taka upp nýja mynt í þessu landi að horfa svo til þess að Evrópa eigi að grípa hér inn í og bjarga okkur þegar næsta fáir vilja bera ábyrgð á einkabankakerfi okkar. Nú á Evrópa að koma á hvíta hestinum og bjarga okkur frá þeim vandræðum sem við höfum skapað sjálf en öðrum þræði (Forseti hringir.) eru menn svo heiftarlegir andstæðingar Evrópusamstarfs sem t.d. tengist betri mynt í (Forseti hringir.) þessu landi. [Kliður í þingsal.]