139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:18]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að hv. þm. Magnús Orri Schram hafi alla vega lesið nefndarálit mitt þar sem ég fer í gegnum það að mjög lítil umræða virðist vera um að búa til sameiginlegan evrópskan innstæðutryggingarsjóð í Evrópu. Ég bendi þar á ýmsar aðrar leiðir sem sé nauðsynlegt að skoða til þess að takmarka áhættuna sem við höfum af því að hafa þrjá stóra banka með um 90% markaðshlutdeild.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Hver er afstaða hans til þeirra tillagna sem ég legg þar fram? Er hann sammála því að nauðsynlegt sé að minnka einstaka banka og fjölga innlánsstofnunum til að dreifa áhættunni? Hvaða tillögur mundi þingmaðurinn sjálfur vilja sjá verða að raunveruleika samhliða því að við samþykkjum þetta frumvarp?

Ég mundi líka vilja fá að heyra skoðanir þingmannsins á því hvort við takmörkum gengisáhættuna nægilega. Þó að ég hafi skilning á því að hæstv. þingmaður vilji gjarnan ganga í Evrópusambandið og fara í framhaldinu inn í myntbandalagið held ég að hann geri sér fullkomlega grein fyrir því að það er töluvert langt í að svo verði. Hvernig getum við takmarkað gengisáhættuna sem er fólgin í því að við tryggjum innstæður upp að 100 þúsund evrum þrátt fyrir að eina myntin sem íslenska ríkið hefur yfir að ráða og getur prentað séu íslenskar krónur? Gæti t.d. komið til greina að fara þá leið sem Kanadamenn hafa farið, að takmarka innstæðutrygginguna hjá sér við innstæður sem eru í kanadískum dollurum? Enn þá væri þó miðað við upphæðina samsvarandi 100 þúsund evrum en það væri algjörlega á hreinu að gjaldeyrisreikningar mundu ekki falla undir innstæðutrygginguna og að það væri alltaf greitt í íslenskum krónum ef kæmi til falls banka.