139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:20]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru fjölmargar spurningar og vonandi gefst mér tími til að svara þeim. Ég get kannski svarað þeim betur í ræðu síðar.

Hv. þingmaður stingur upp á því að ein lausn geti verið sú að koma á sameiginlegu innstæðutryggingakerfi fyrir evrópskan fjármálamarkað. Ég er hjartanlega sammála þeirri lausn sem hún stingur þar upp á og ég tel að það sé mjög ákjósanlegt fyrir Ísland að taka þátt í því á vettvangi Evrópusamstarfs.

Komið hefur í ljós við umræður í viðskiptanefnd að nú stendur yfir athugun á því verkefni á vettvangi Evrópusambandsins. Þeirri athugun á að vera lokið árið 2014 en það sem stendur kannski helst í vegi fyrir samevrópsku tryggingakerfi er að þýska sparisjóðakerfið stendur veikt og menn eru hræddir við að taka ábyrgð á stöðu þess fyrr en fullvíst er hvert ástandið á sparisjóðakerfinu er í raun og veru. Ég tel að við eigum að skoða þann möguleika mjög ítarlega og taka þátt í þeirri vinnu. Reyndar snýst þetta um að Evrópusambandið er að skoða evrópskt samtryggingarkerfi en við erum aðilar að EES og er þess vegna svolítill vandi á höndum. Vonandi getum við þó tekið þátt í því verkefni.

Ég tel að það sé mjög íhugunarvert að skoða frekar að hér verði margir minni bankar frekar en þrír stórir. Við sjáum það ef við berum saman hlutdeild þriggja stærstu bankanna á Íslandi, Danmörku og Noregi að þá er hlutdeild þeirra þriggja stærstu mest á Íslandi eða tæplega 90%, á meðan þeir eru í kringum 75% í Danmörku og 55% í Noregi. Þá er spurningin hins vegar sú: Verða bankarnir okkar veikari en ella ef þeir eru of litlir? Ná þeir upp hagkvæmni í rekstri? Það er spurning sem við verðum að svara um leið.

Mikið þykir mér það einkennilegt í þessari ESB- og EES-umræðu að við sem erum fylgjandi því að Ísland gangi í Evrópusambandið erum sömuleiðis fylgjandi því að við viljum vera fullgildir meðlimir í þeirri umræðu sem er á vettvangi Evrópusambandsins, t.d. hvað varðar samevrópskt innstæðutryggingakerfi. En við erum eilítið utangátta eins og staðan er innan EES-samstarfsins.