139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:23]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ræddum nokkuð á vettvangi viðskiptanefndar gengisáhættuna, t.d. hvað snertir fjárfestingar og fjárfestingar innstæðutryggingarsjóðsins. Ég tel að hann eigi með einhverju leyti að koma til móts við þá gengisáhættu sem felst í skuldbindingum um 100 þúsund evrur með fjárfestingarstefnu sinni.

Við erum hér bundin af EES-reglugerðum um að 100 þúsund evrur skuli vera viðmið og komumst ekki fram hjá því. En gengisáhættan sýnir í raun og veru veikleika myntarinnar sem við höfum, hún sýnir veikleikann í bankakerfinu, að myntin okkar er í raun og veru ekki gjaldgeng. Við lendum því í sífelldum erfiðleikum ef við viljum taka þátt í samevrópsku samstarfi, ef við viljum byggja hér upp bankakerfi sem getur þjónustað almenning og fyrirtæki sem horfa út fyrir landsteinana. Við erum alltaf í vandræðum með krónuna, líka til lengri tíma litið. Við komumst bara ekki fram hjá því að taka á því með einhverjum hætti. Það er alveg sama hvað hv. þingmenn hrista hausinn yfir þeirri staðreynd, (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) við erum með verðlausan gjaldmiðil (Gripið fram í.) sem við þurfum með einhverjum hætti að komast út úr ef við viljum geta búið hér til traustan innstæðutryggingarsjóð. (Gripið fram í: … kanadískan dollar.)