139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Þakka þér fyrir, virðulegi forseti. Það var nokkuð erfið fæðing að fá hér orðið en tókst að lokum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill upplýsa að ráðherra er á leiðinni á fundinn, þannig að hv. þingmaður getur haldið ræðu sinni áfram.)

Þakka þér fyrir það, virðulegi forseti. Ég fagna þeim viðbrögðum hæstv. forseta að hafa brugðist svona vel við óskum okkar þingmanna um að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra verði við staddur þá umræðu sem hér fer fram um frumvarp til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Þetta frumvarp er, eins og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson rakti þegar hann flutti nefndarálit það sem við undirritum, nefndarálit 1. minni hluta viðskiptanefndar — gamall kunningi okkar þingmanna, en ekkert sérstaklega góður. Gríðarlegar miklar deilur hafa verið um þetta mál hér á Alþingi, þær deilur eru mjög skiljanlegar, vegna þess að þetta mál tengist Icesave-málinu mjög sterkum böndum. Eins og menn vita hafa Bretar og Hollendingar haft uppi kröfur á hendur Íslendingum vegna Icesave-reikninganna, en þær kröfur beinast að forminu til gagnvart Tryggingarsjóði innstæðueigenda. Þegar Landsbankinn fór á hausinn kom í ljós að það tryggingakerfi sem við höfum komið okkur upp stóð ekki undir þeirri vernd sem því var ætlað að veita, meðal annars gagnvart þeim sem höfðu lagt sparifé sitt eða fjármuni inn á Icesave-reikningana. Í ljósi þess sem á undan er gengið er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort og þá hvers kyns tryggingakerfi er eðlilegt að verði komið upp hér á Íslandi fyrir innstæðueigendur og fjárfesta sem eiga hagsmuni í bönkum.

Eins og áður segir er þetta mál ekki nýtt af nálinni hér á Alþingi. Það var flutt, efnislega mjög samhljóða, fyrst af fyrrverandi hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, Gylfa Magnússyni. Frá því málið kom fyrst fram höfum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins alla tíð lýst okkur andvíga frumvarpinu og andvíga þeirri grundvallarhugsun sem þar kemur fram vegna þess að hugsunin gengur einfaldlega ekki upp — ég mun koma að því hér á eftir hvers vegna svo er. Frumvarpið er í eðli sínu ákaflega vanhugsað. Það byggir á tilskipun Evrópusambandsins sem á engan veginn við á þeim smáa markaði sem er á Íslandi.

Mig langar að víkja að því að á fyrri stigum þessa máls sneri andstaða okkar sjálfstæðismanna gagnvart frumvarpinu ekki síst að því að í fyrra frumvarpi var ekki tekið fram að hinn nýi Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta nyti ekki ríkisábyrgðar. Það er auðvitað kjarninn í Icesave-málinu og Icesave-deilunni sem hér hefur staðið í um það bil tvö ár. Deilan hefur snúist um það hvort íslenska ríkið og íslenskir skattgreiðendur eiga að bera ábyrgð á skuldbindingum fjármálafyrirtækja; banka, sparisjóða og annarra fjármálafyrirtækja.

Í þeirri tilskipun sem núverandi löggjöf byggir á, sem er tilskipun um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 19/94, ef ég man töluna rétt, er hvergi tekið fram að starfsemi banka njóti ríkisábyrgðar. Í hinni nýju tilskipun frá Evrópusambandinu um sama efni, nr. 14/2009, er gengið mun harðar fram og kveðið fastar að orði um skyldur ríkisins gagnvart innstæðutryggingum og tryggingakerfum fyrir þá en gert var í fyrri tilskipun. Af því leiddi að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og reyndar fleiri til, höfðum miklar áhyggjur af því að með því að innleiða þessa tilskipun inn í íslenskan rétt væri verið að stíga skref í þá átt að tryggja ábyrgð ríkisins og ábyrgð íslenskra skattgreiðenda á starfsemi bankanna. Þegar þetta frumvarp var lagt fram nú á þessu þingi hafði það tekið breytingum hvað þetta varðar. Nú er tekið fram í lokamálslið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins að hinn nýi sjóður, Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, njóti ekki ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum í skilningi laga um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.

Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra féllst því á sjónarmið okkar, sem við færðum fram á fyrri stigum þessa máls, og því ber sérstaklega að fagna. Það er mikið fagnaðarefni að í frumvarpinu sé kveðið skýrt á um það að skuldbindingar sjóðsins njóti ekki ábyrgðar ríkisins og ábyrgðar íslensks almennings. Sú barátta hefur kostað mikið þrek og mikinn tíma, en þessi árangur náðist. Þar með liggur fyrir að verði þessum tryggingarsjóði komið á er hann sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt lögum sem um þær gilda og ber ábyrgð á eigin skuldbindingum.

Um þessi sjónarmið og um þessar deilur sem ég hef hér farið yfir varðandi ríkisábyrgðina og túlkun á tilskipunum Evrópusambandsins frá 1994 og 2009 má lesa í ítarlegu máli í 5. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar er þetta allt skýrt mjög nákvæmlega. Þó svo að þessi mikilvæga breyting hafi verið gerð á frumvarpinu, sem ég tel ástæðu til að fagna sérstaklega, er ekki þar með sagt að frumvarpið sé komið í lag og það sé þess efnis að hægt sé að samþykkja það. Nú ætla ég að fara yfir hvers vegna það er.

Reyndar er það svo að þegar maður les nefndarálit meiri hluta viðskiptanefndar fer maður að efast um að málið njóti nú jafnmikils stuðnings meðal stjórnarflokkanna og það gerði hér áður vegna þess að tveir af þeim hv. þingmönnum sem undirrita nefndarálit meiri hlutans og standa að því hafa sagt sig frá stjórnarmeirihlutanum, hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason. Það er því hugsanlegt að töluvert hafi fjarað undan stuðningi hv. þingmanna sem áður studdu málið en gera það eflaust ekki nú. Það er til merkis um að hv. þingmenn hafa ekki fast land undir fótum, þ.e. þeir sem tala fyrir því, sem eru fyrst og fremst þingmenn stjórnarflokkanna, hv. þingmenn Samfylkingar og Vinstri grænna, sem leggja mikið kapp á það að frumvarpið verði að lögum. Eins og ég sagði í andsvari mínu fyrr í dag er búið að snúa hlutunum töluvert á haus þegar íslenskir vinstri menn eru farnir að berjast af kappi fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þannig var það nú ekki í þessum sal hér fyrr á árum, en nú er annað hljóð komið í strokkinn og má segja að íslenskir vinstri menn hafi gengið í lið með hv. þm. Pétri H. Blöndal og fleirum hvað þetta varðar.

En hvað er að þessu máli? Jú, í 1. mgr. 1. gr., upphafsmálsgrein frumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.“

Þetta er kjarni frumvarpsins. Kjarninn er sá að tryggja innstæðueigendum vernd gerist það að fjármálafyrirtæki eða banki fari á hausinn. Til að átta sig á því hvernig höfundum frumvarpsins lánast að veita þessa vernd er mikilvægt að fólk átti sig á því út á hvað þetta kerfi gengur. Það gengur út á það að bankar og fjármálastofnanir greiði tiltekna fjárhæð eða iðgjald í sjóð, þennan nýja tryggingarsjóð um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Sjóðnum er ætlað að tryggja að innstæðueigendur fái greitt út af reikningum sínum komi sú staða upp að fjármálafyrirtæki falli, að banki fari t.d. á hausinn. Þetta er gert til að tryggja að viðskiptavinir banka geti treyst því að fá innstæður sínar greiddar út við fall fjármálafyrirtækis. Þetta er kjarni þessa máls. Þetta er sú vernd sem kveðið er á um í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins.

En hvernig er þessari vernd síðan háttað og hvernig mun hún reynast ef fjármálafyrirtæki verður fyrir áfalli? Í málinu liggur fyrir álitsgerð frá Talnakönnun sem gerði úttekt á iðgjaldagreiðslum bankanna í þennan sjóð. Þegar hún hefur verið lesin kemur í ljós að komi sú staða upp að einn af viðskiptabönkunum þremur, Landsbankinn, Íslandsbanki eða Arion banki, fari á hausinn megi það ekki gerast gagnvart innstæðueigendum í þessum bönkum fyrr en í fyrsta lagi eftir eina öld vegna þess að það tekur heila öld samkvæmt frumvarpinu að safna upp í þann sjóð nægilegum fjármunum til að tryggja viðskiptavinum hins fallna banka þær útgreiðslur sem frumvarpinu er ætlað að tryggja — heila öld. Þá veltir maður því fyrir sér hversu raunveruleg sú vernd sé sem kveðið er á um í upphafsorðum frumvarpsins. Hún er auðvitað ekki raunveruleg. Það kom hér skýrt fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams að hann hefði enga sannfæringu fyrir því að það frumvarp sem hér er til umfjöllunar tryggði þá vernd sem að er stefnt í frumvarpinu og var þar af leiðandi sammála því sem fram kom í ræðu samflokksmanns síns, hv. þm. Skúla Helgasonar, þegar sá hv. þingmaður flutti nefndarálit hins laskaða meiri hluta viðskiptanefndar sem að því áliti stendur.

Þetta er það sem ég kalla falska vernd. Það er fölsk vernd og í rauninni sýndarmennska að leggja fram frumvarp sem mælir fyrir um það að upp skuli komið kerfi sem ekki er sterkara á svellinu en svo að það tekur heila öld að tryggja þá hagsmuni sem því er ætlað að tryggja. Þetta sýnir að hugsunin í frumvarpinu gengur ekki upp, hún gengur engan veginn upp og engum þingmanni stjórnarflokkanna hefur tekist að sýna fram á það í þessum umræðum, hvorki í nefndinni, hv. viðskiptanefnd, né í 1. eða 2. umr. um málið hér í þingsal, að eitthvert vit sé í frumvarpinu.

Það má vel vera að þessi tryggingarsjóður, hinn nýi tryggingarsjóður sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, geti staðið undir áföllum þegar lítil fjármálastofnun fer á hausinn, að það séu nægir fjármunir í sjóðnum til að tryggja hagsmuni innstæðueigenda í litlum sparisjóði, t.d. Sparisjóði Raufarhafnar, það getur vel verið. Hv. þm. Magnús Orri Schram sagði, ef ég tók rétt eftir, að það væri rétt að frumvarpið, þessi sjóður, tryggði ekki innstæður viðskiptavina eins af stóru bönkunum við fall þeirra, en það væri að minnsta kosti ásættanlegt að hann tryggði innstæður viðskiptavina lítilla sparisjóða. Ég spyr nú í því sambandi: Hvar er þá jafnræðið milli innstæðueigenda? Er eðlilegt að við séum með tryggingakerfi sem í orði kveðnu á að tryggja alla en tryggir bara suma? Í ljósi þess hljótum við líka að líta til þess hver markaðshlutdeild stóru viðskiptabankanna þriggja á þessum markaði er. Hún er í kringum 90%. Það segir okkur að það frumvarp sem hér er verndar nánast engan af innstæðueigendum og viðskiptavinum bankanna þriggja. Þetta er kjarni málsins, þetta er það sem er fyrst og fremst að varðandi þá grundvallarhugmynd sem frumvarpið byggir á.

Þar fyrir utan furðar maður sig á því, eftir allt sem á undan hefur gengið, að mönnum detti yfirleitt í hug að færa tryggingafjárhæðina úr 20 þúsund evrum á hvern reikning, sem er fjárhæð sem við gátum ekki staðið undir við hrun efnahagskerfisins og hrun bankakerfisins, upp í 100 þúsund evrur, úr 3,3 milljónum íslenskra króna á reikning upp í 16,5 milljónir. Menn láta eins og hér flæði allt í peningum og ríkið, og tryggingarsjóðurinn, sé í færum til þess að greiða út fimm sinnum hærri fjármuni til innstæðueigenda við fall bankakerfis þrátt fyrir að sá sjóður sem fyrir er sé gjaldþrota, og það vita það allir. Þar við bætist að í frumvarpinu er lagt til að sá frestur sem tryggingarsjóðurinn hefur til að greiða út, verði slíkt fall að raunveruleika, verði styttur; fjárhæðin hækkuð og fresturinn til að greiða út styttur. Þá mætti orða það sem svo að hv. þingmenn og hæstv. ráðherra, sem standa að frumvarpinu, hagi sér eins og strútar; stingi bara hausnum í sandinn og vonist til þess að enginn átti sig á því hvað hefur gengið á hér á síðustu tveimur árum. Ég fæ ekki séð annað en að í frumvarpinu felist fullkomin afneitun á þeirri stöðu sem uppi er í íslenska bankakerfinu, sérstaklega hvað þetta varðar.

Þar við bætist, virðulegi forseti, að sú tilskipun sem frumvarpið byggist á hefur ekki enn verið tekin upp í EES-samningnum. Í ljósi þessa hlýtur maður að velta því fyrir sér hvað liggur á. Það liggur ekkert á. Það er engin pressa á íslenskum stjórnvöldum að innleiða þessa tilskipun í íslenskan rétt með samþykkt þessa lagafrumvarps. Það hefði verið miklu skynsamlegra, af því hv. þm. Magnús Orri Schram spyr hvað eigi að gera þá, fyrir íslensk stjórnvöld að reyna að fara í einhverjar samningaviðræður við Evrópusambandið eða að finna upp einhverjar nýjar leiðir og aðrar sem ganga upp í íslenskum raunveruleika, en ekki fara fram með frumvarp sem augljóslega gengur ekki upp.

Ég skora á alla hv. þingmenn að reyna að koma í andsvar við mig og útskýra það í eitt skipti fyrir öll hvort frumvarpið nær markmiðum sínum, nær fram þeim markmiðum sem að er stefnt, að tryggja innstæðueigendum og viðskiptavinum banka þá vernd sem að er stefnt í 1. gr. frumvarpsins. Það er alveg sama hvað ég les það oft, það er alveg sama hversu margar umsagnir ég les, ég fæ ekki séð að frumvarpið gangi upp. Ég skora á hv. þingmenn að útskýra fyrir mér hvernig í ósköpunum þetta kerfi allt saman á að ganga upp og rökstyðja það fyrir mér (Forseti hringir.) hvernig sú vernd er veitt?