139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:51]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við erum sammála um að breytingin á 3. gr. frumvarpsins er ánægjuleg, um að afnema skuli ríkisábyrgð af skuldbindingum sjóðsins. Það er vel, en ég er forvitinn að heyra skoðun hv. þingmanns á því hvað hann telji að gera skuli.

Hann nefnir í ræðu sinni tvær hugmyndir, annars vegar að á grundvelli samevrópsks kerfis verði leitað leiða til að hafa tryggingarsjóðinn stærri og sterkari. Það er alveg ljóst að sú umræða á sér stað á vettvangi Evrópusambandsins, en hvað hefur þingmaðurinn hugsað sér að gera þangað til ljóst er með hvaða hætti sá samevrópski tryggingarsjóður verður til? Við vitum svo sem ekki hvort hann verður til en ef hann verður til, hvað hefur þingmaðurinn hugsað sér að gera þangað til? Hefur hann áhuga á því að við komumst undan þeirri yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er í gildi frá haustmánuðum 2008 og gefin var á grundvelli samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar?

Hvað hefur svo orðið um íslenska hægri menn ef þeir eftirláta vinstri mönnum að berjast fyrir hagsmunum innstæðueigenda í þessu landi? Hvar eru þeir staddir? Það væri gaman að heyra í hv. þingmanni um það hvort hann sé hættur að berjast fyrir hagsmunum innstæðueigenda, þá sérstaklega þegar við horfum til þeirra 95% landsmanna sem eiga ekki nema 43% upphæðarinnar reyndar en eiga innstæður í íslenska bankakerfinu undir 15 millj. kr. (Gripið fram í.)

Hér hafa hægri menn, hv. þingmaður, gengið hvað harðast fram og harðlega gagnrýnt þessa EES-tilskipun. (Gripið fram í.) Þá höfum við í raun og veru tvo valkosti. Viljum við ekki taka upp EES-tilskipanir sem koma á vettvangi samstarfsins eða vill hv. þingmaður taka ríkari þátt í mótun þessara tillagna? Hvort vill þingmaðurinn, ganga út úr EES eða taka skrefið og taka þátt í mótun þeirra tillagna, þeirrar umræðu sem á sér stað á hinu samevrópska plani um hvað beri að gera í hinu samevrópska bankakerfi um tryggingakerfi? Vill hv. þingmaður taka þátt í þeirri umræðu eða hyggst hann sitja heima?