139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni fyrir ágæta ræðu. Ég get tekið undir nánast allt í henni en þegar kom að því að gleðjast yfir 3. gr. hugsaði ég með mér: Litlu verður Vöggur feginn. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvaða gildi hefur þessi grein eða þetta ákvæði? Með leyfi forseta:

„Sjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum í skilningi laga um ríkisábyrgðir …“

Nú er það svo með tilskipanirnar í Evrópusambandinu að sú gamla frá 1994 var ekki með neinu ákvæði um ríkisábyrgð en sú nýja er með ákvæði um ríkisábyrgð í þeim skilningi að ríkið eigi að tryggja að nægt fjármagn sé til í innstæðutryggingarsjóðnum. Þá er spurningin: Hvað gerist þegar tvö ákvæði rekast á? Hvað gerðist með Icesave, frú forseti, þegar tilskipun Evrópusambandsins sagði eitt og meira að segja mjög veikt og síðan sögðu lög frá Alþingi eða Íslandi að engin ríkisábyrgð væri á þessum sjóðum? Jú, menn fóru í viðskiptastríð og við vorum kúguð til að samþykkja Icesave. Hvað gerist núna þegar stendur í íslenskum lögum að ekki sé ríkisábyrgð á þessu en í tilskipuninni segir að ríkissjóður eigi að tryggja að nægt fé sé til í innstæðutryggingarsjóðnum? Hvað gerist? Ég er ansi hræddur um að við verðum neydd til að greiða þrátt fyrir þetta ákvæði.

Ég get því ekki tekið undir gleði hv. þingmanns með þetta ákvæði vegna þess að nú stendur eiginlega sama ákvæðið í gildandi lögum um innstæðutryggingar vegna þess að það stendur ekki neitt um ríkisábyrgð. Þá er að sjálfsögðu ekki ríkisábyrgð. Ég sé ekki að þetta ákvæði breyti neinu nema búa til nýjan lagaágreining við erlenda aðila og innlenda.