139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Gefum okkur að einn af þrem bönkunum fari á hausinn og búið sé að safna kannski 3% á 10 árum upp í innstæðurnar og gefum okkur að sá banki hafi verið með 25% af öllum innstæðum í landinu og upp á vanti 22%. Gefum okkur síðan að einhver líti á þessa tilskipun og segi: Ja, bíðum nú við — ríkissjóður á að tryggja að nægt fé sé í innstæðutryggingarsjóðnum en svo er ekki. Hvað gerist? Þá munu menn fara í mál og ríkissjóður mun segja: Heyrið, það stendur hér í lögunum að ekki sé ríkisábyrgð á þessu. En samkvæmt tilskipuninni á ríkissjóður að tryggja fé í sjóðinn. Ég hugsa að þetta sé miklu verra en Icesave. Þrátt fyrir þetta ákvæði er okkur sagt með enn sterkari rökum en var reynt með Icesave: Þið hafið bara ekki innleitt þetta rétt með því að taka ríkisábyrgðina út. Þetta var ekki rétt innleitt.

Ég hygg að þetta séu stórkostleg mistök og að ákvæðið sé tómt, það segi ekki neitt. Tilskipunin er mikið sterkari. Hún segir mikið meira, hún tryggir meira. Að mínu mati er þetta ákvæði bara til að búa til meiri ágreining og meiri deilur við erlend ríki. Eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á rekur engin nauðung okkur til að samþykkja þetta nú þegar vegna þess að það er ekki búið að innleiða þessa tilskipun hjá Evrópska efnahagssvæðinu.