139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir ágæta ræðu. Hann fór í gegnum það hversu mikilvægt væri að hafa innlánstryggingarkerfi fyrir traust á bankakerfið.

Nú hefur Evrópusambandið sett nýja reglugerð eða tilskipun 2009/14/EB sem ekki hefur tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Þar er enn í gildi tilskipun 94/19/EB og hún er miklu veikari. Hún er í fyrsta lagi með lægri upphæð, 20 þús. evrum í staðinn fyrir 100 þús. evrum, og miklu veikari kröfu og mælir eiginlega fyrir um að ekki sé ríkisábyrgð á innlánstryggingarkerfinu, ef það er rétt innfært, öndvert við þá nýju.

Nú er spurning: Af hverju stofnuðu menn ekki nýjan innlánstryggingarsjóð á grundvelli tilskipunar frá 94/19 sem var með 20 þús. evrum og slíku og fór ekki út í þá gífurlegu tryggingavernd sem er samkvæmt 2009/14? Af hverju gerðu menn það ekki?

Þá vil ég spyrja: Hefur hæstv. ráðherra bent Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu á það að þetta gangi bara ekkert upp, þetta kerfi? Það gengur ekkert upp, hvorki í Hollandi, Íslandi, Finnlandi né öðrum svona „minni“ ríkjum. Það gengi ekkert upp í Hollandi ef stærsti bankinn færi á hausinn. Það eru ekki til neinar innstæður í þessu innlánstryggingakerfi. Þetta kerfi gengur ekki upp nema eitt kerfi sé fyrir allan heiminn, eins og raunin er með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, eða þá alla vega fyrir alla Evrópu.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hefur hann leitað til annarra landa? Við getum gert samning við Bandaríkin, af því að menn eru alltaf að tala um Evrópusambandið, við getum gert samning við Norðurlöndin um að tekið yrði upp innlánstryggingarkerfi sameiginlegt með þeim sem allir mundu hagnast á. Það mundi dreifa áhættunni. En þetta kerfi er handónýtt. (Forseti hringir.)