139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er útfærsluatriði hvernig menn tryggja sameiginlegar innstæður. Við gætum haft hámarkið 20 þús. evrur, Norðmenn 250 þús. Þetta er bara svipað og menn endurtryggja um allan heim. Það eru stundaðar endurtryggingar um allan heim. Mér finnst að þetta kerfi eigi að vera samkvæmt sömu aðferðafræði.

Það er munur á þessum tveimur tilskipunum hvað varðar ríkisábyrgð. Það er munur á því og hann er veigamikill. Hann er mjög veigamikill vegna þess að nú skal viðkomandi ríki tryggja að til séu innstæður í innstæðutryggingarsjóðnum, að fé sé til reiðu þegar á að greiða út. Ég veit ekki hvernig menn fara að því. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig ætlar hann að fara að því ef banki lendir í vandræðum og hann samkvæmt tilskipuninni á að tryggja að fé sé til í innstæðutryggingarsjóðnum? Er það ekki ríkisábyrgð? Nema hvað?