139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Margrét Tryggvadóttir) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hjó eftir því í ræðu ráðherrans að hann talaði um að við þyrftum að koma okkur upp trúverðugu og heilbrigðu innstæðutryggingakerfi. Ég get alveg tekið undir það. En þessi tvö orð mundi ég aldrei nota um það tryggingakerfi sem hér er verið að setja á stofn, svo að það sé sagt.

Mig langar að spyrja ráðherrann út í þær tvær deildir sem frumvarpið gerir ráð fyrir að séu stofnaðar, A- og B-deild. Ef við ætlum á annað borð í þessa vegferð finnst mér að við ættum að setja þetta í tvær stofnanir með tvær kennitölur, bara til þess að slá alla þá varnagla sem hægt er að slá. Það væri þá alveg tryggt að sá sem ætti kröfu í A-deildina eða B-deildina gæti ekki gert kröfu í hina deildina. Mér finnst það einhvern veginn hreinlegra og ég veit að framkvæmdastjóri innstæðutryggingarsjóðsins er sammála mér um það.

Mig langar líka að spyrja ráðherrann um skoðanir hans á framtíðarfyrirkomulagi innstæðutrygginga í Evrópu eða annars staðar í heiminum — hvort honum finnist virkilega að það kerfi sem hér er lagt til komi til með að ganga og hvort það verði ofan á í framtíðinni, eða hvort menn vilji ekki taka þetta til nánari endurskoðunar. Mig langar líka að spyrja hann um hver hans skoðun sé á forgangsröðun krafna, hvort það væri einhver lausn að gera innstæður að forgangskröfum, varanlega, eins og sumir hafa lagt til og neyðarlögin ganga í raun út frá.