139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vonaðist til að geta átt fleiri orðaskipti við hæstv. ráðherra en hann er ekki í salnum núna en ekki er útilokað að hann sé að fylgjast með. Ég hafði tækifæri til að fara í stutt andsvar við hann áðan en hann svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég spurði hann hvaða málflutning hann hefði viðhaft þegar hann hitti kollega sína í Brussel vegna þessa máls og síðan hverjar hann teldi ástæðurnar fyrir því að orðalagi í nýju tilskipuninni var breytt frá þeirri gömlu hvað varðar aðkomu ríkisvaldsins. Og í þriðja lagi af því að hér er oft verið að tala niður möguleika á því að bankar falli aftur á Íslandi, þá vitum við sem sitjum í hv. viðskiptanefnd að Landsbankinn mun væntanlega ekki þola það að fyrningarleiðin, sem er stefna hæstv. ríkisstjórnar, verði farin. Hæstv. ráðherra er að vísu eini maðurinn sem hér hefur talað, og þá tel ég stjórnarliðana líka, eins og að innstæðutryggingakerfið sem sett verður á laggirnar ef fram heldur sem horfir, geti komið til móts og sé trúverðugt ef einn af þrem stóru bönkunum fellur, sem við vonum svo sannarlega að gerist ekki. Ég vil því nota tækifærið og lesa beint úr hans eigin minnisblaði. Þetta er minnisblað sem fór að minni beiðni til fjárlaganefndar. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með tilliti til allra þessara öryggisráðstafana verður að ætla að líkur á kerfisáfalli, þ.e. falli eins eða fleiri af stærstu fjármálafyrirtækjunum, séu afar litlar.“ — Hér telur ráðuneytið að það séu litlar líkur á því að einn af þrem stóru bönkunum falli. Síðan segir: „Gerist slíkt engu að síður yrði að mæta því með inngripum af hálfu ríkisins, enda væri efnahagslegt öryggi ríkisins þá í hættu.“

Hér stendur mjög skýrt að ríkið þurfi þá að koma að þessu. Ég skil þess vegna ekki af hverju hæstv. ráðherra gengst ekki við eigin minnisblaði. Hv. þm. Magnús Orri Schram fór ágætlega yfir þetta og hann dró ekki dul á þetta, enda hefur þetta margoft komið fram. Það er alveg sama hvernig þetta er lagt upp, menn hafa ekki getað séð að þetta kerfi geti tryggt einn af bönkunum þremur.

Ég er búinn að biðja í rúmlega viku um minnispunkta og upplýsingar frá Fjármálaeftirlitinu, ég bað síðast starfsmenn þingsins um að fylgja því eftir, hvernig innstæður eftir fjármálastofnunum skiptast niður, vegna þess að mér sýnist samþjöppunin vera miklu hraðari en við mundum ætla. Til dæmis þegar Landsbankinn tók yfir Sparisjóð Keflavíkur fór innstæðuhlutfall Landsbankans af heildarinnstæðum landsmanna úr 25% í 30%. Sparisjóður Keflavíkur var með nokkurn veginn helminginn af því sem er í sparisjóðunum á landinu. Það væri fróðlegt og gott fyrir þingheim að vita hvað er orðið eftir fyrir utan stóru bankana þrjá, hvar annars staðar eru innstæður.

Við erum búin að setja 250 milljarða, sem er eins fjórir til fimm nýir Landspítalar, í fjármálakerfið og þar með talið sparisjóðina. Þetta eru annars vegar fjárframlög og hins vegar víkjandi lán. Ef menn þekkja víkjandi lán þá eru þau síðast í röðinni ef greiða á lán, ef eitthvað kemur upp á eru þau fyrst út og þar með talið eru hinir ýmsu sparisjóðir. Hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra talaði mjög skýrt um það í umræðunni í dag um framtíð fjármálamarkaðarins að hann ætlaði ekki að láta ríkið halda uppi einhverjum sparisjóðum ef þar væri ekki rekstrarlegur grundvöllur.

Nú bendir ýmislegt til þess að ekki sé rekstrarlegur grundvöllur hjá þessum litlu sparisjóðum. Það þýðir að við sjáum enn meiri samþjöppun á sparisjóðamarkaðnum. Reyndar komu fulltrúar Bankasýslunnar til hv. viðskiptanefndar og fóru yfir það að nokkrar leiðir væru færar hvað varðar sparisjóðina og maður gat ekki séð annað en að sú vænlegasta, og sem byrjað er á, væri að sparisjóðirnir sameinuðust stóru viðskiptabönkunum. Sú þróun er hafin.

Virðulegi forseti. Það virðist vera að gerast að stóru bankarnir þrír séu að verða hlutfallslega stærri mjög hratt og það gerir þetta kerfi enn veikara fyrir. Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni að við gjaldþrot fengjust 50% upp í innstæðutryggingarnar. Hann sagði að vísu seinna í umræðunni að það væri mjög erfitt að halda innstæðum í forgangi hjá tryggingarsjóðnum. Ég held að þetta sé alveg raunhæft mat hjá efnahags- og viðskiptaráðherra og þá eru ansi miklar líkur á því að þetta 50% hlutfall lækki.

Það hefur verið upplýst í hv. efnahagsnefnd, og það er væntanlega það sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur verið að vísa í þegar hann hélt ræðu sína, að á næstu árum og kannski áratug, a.m.k. á næstu árum, muni íslenskir bankar ekki geta fjármagnað sig öðruvísi en t.d. Landsbankinn var í raun að fjármagna sig, þ.e. með því að fjármagnið er sett fram fyrir tryggingarsjóðinn. Það er eitthvað sem menn þurfa að taka með í reikninginn þegar þeir gera áætlun sína um tryggingarsjóðinn, því að svo virðist að öllu þessu gefnu að við þurfum fyrst og fremst að treysta á inngreiðslur í tryggingarsjóðinn. Við getum ekki treyst á að það komi mikið úr bönkunum vegna þess að þær kröfur munu ganga framar tryggingarsjóðnum.

Þetta er í rauninni það sem hæstv. ráðherra sagði í öðru orðinu en kannaðist svo ekki við í hinu. Það er ekki mikill bragur á því og í rauninni fullkomlega fáránlegt af hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að koma og tala gegn sínu eigin minnisblaði sem bæði er búið að dreifa í hv. fjárlaganefnd og hv. viðskiptanefnd og allir geta lesið sem vilja. Hann er í rauninni að lýsa yfir ákveðnu vantrausti á sjálfum sér ef hann heldur því fram að það sem stendur svona skýrt, og ég er búinn að lesa, í þessu minnisblaði hans sé ekkert að marka. Þetta er mjög skýrt, virðulegi forseti, og ég skal lesa það aftur, með leyfi forseta:

„Gerist slíkt engu að síður yrði að mæta því með inngripum af hálfu ríkisins, enda væri efnahagslegt öryggi ríkisins þá í hættu.“

Þá er verið að vísa í það ef einn banki af þessum þrem félli. Þetta er þvert á það sem hæstv. ráðherra talaði um áðan.

Síðan er alveg rétt, eins og kom fram m.a. í ágætri ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams þar sem hann fór að mörgu leyti ágætlega yfir málið, að það eru auðvitað fleiri öryggisgirðingar en bara innstæðutryggingarsjóður. En það er nú vandinn að við höfum ekki verið að fara yfir það. Ég var hér með nefndarálit minni hluta viðskiptanefndar þegar við vorum að fara yfir fjármálafyrirtækin. Þar segir, með leyfi forseta, að ekki hafi verið tekin afstaða til eftirfarandi atriða:

Hvort og hvernig eigi að setja reglur um hámarkseignarhlut fjármálafyrirtækja; hvort skynsamlegt þyki að reka fjárfestingarbanka og viðskiptabanka í einni stofnun; að ekki hafi verið ráðist í endurbætur á lögum um endurskoðendur; að ekki hafi verið tekið á verkaskiptingu milli Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins; að því hafi ekki verið svarað hver sé framtíðarskipan sparisjóðanna í landinu; að ekki er tekið á ábyrgð svokallaðra skuggastjórnenda. Sömuleiðis hafði minni hlutinn áhyggjur af því að ekki sé girt fyrir að bankar geti lánað til eigenda sinna, að ekki hafi verið rætt um innstæðutryggingakerfið og ekki verið rætt um hvort skynsamlegt væri með auknu valdi Fjármálaeftirlitsins að fjármálafyrirtæki hafi málskotsrétt. Hér er ýmislegt annað tínt til.

Þegar við ræddum þessi mál í umræðunni þegar við gengum frá þessu máli síðasta sumar voru allir sammála um það ætti eftir að taka á þessum þáttum, menn ætluðu bara að gera það seinna. Við erum líka að ýta þessu máli á undan okkur núna og ætlum einhvern veginn að afgreiða það seinna.

Þegar gengið var frá lögum um sparisjóðina fyrir rúmu ári, og það þurfti að gera fyrir 1. júlí 2009, það lá svo mikið á, átti eftir að fara í nokkra hluti í tengslum við lagaumgjörð sparisjóðanna. Í fyrsta lagi skýrar skilgreiningar. Í öðru lagi rekstrarumhverfi sparisjóða. Í þriðja lagi tengsl við heimasvæði og upphæð stofnfjár. Í fjórða lagi gagnsæi í reglum um stofnfjáreigendur. Í fimmta lagi hverjir geta orðið stofnfjáreigendur. Í sjötta lagi stjórnkerfi sparisjóðanna. Í sjöunda lagi atkvæðavægi stofnfjárhlutar o.s.frv.

Í rauninni átti eftir að fara í gegnum allt sem sneri að sparisjóðunum. Á því er enginn vafi að það hefur reynst þjóðinni mjög dýrt að ekki hafi verið farið í þessa vinnu. Ég vek athygli á því að það er búið að setja núna 250 milljarða, sem eru eins og ég sagði fimm til sex nýir Landspítalar, í fjármálakerfið og það er ekki enn farið að taka á þessum grundvallarþáttum. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, og það sér hver einasti maður og ég veit ekki til þess að neinn sem talar um tryggingakerfið hafi haldið neinu öðru fram, að það gengur ekki upp að vera með tryggingakerfi fyrir þrjá aðila, það gengur bara ekki upp, enda er það alveg viðurkennt. Það er fullkomlega óskiljanlegt af hverju hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki bent á þessar augljósu staðreyndir á fundum sínum með Evrópusambandinu.

Hér talaði hv. þm. Magnús Orri Schram og hann talar iðulega um Evrópusambandið eins og fyrirheitna landið, þetta lagist allt ef við bara dettum þar inn og þetta verði allt hið fullkomna himnaríki. Því hvet ég hv. þm. Magnús Orra Schram til að skoða umfjöllun The Economist núna um vinaþjóðir okkar Íra og Grikki sem eru einmitt í náðarfaðmi Evrópusambandsins og eru hvorki meira né minna en með evru. Þeir eru núna í þeirri stöðu að geta ekki greitt skuldir sínar út af lánum sem þeir fá frá Evrópusambandinu sem, ef ég man rétt, eru á nálægt 3% hærri vöxtum en markaðsvextir eru í dag og þeir hafa farið fram á að fá lækkun á sínum vöxtum. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur áhuga á að taka þátt í umræðunni og ég hvet hann til þess að setja sig á mælendaskrá og svara þeim fyrirspurnum sem til hans er beint. Ég fer að vísu aftur í ræðustól ef hann svarar þeim ekki því að ég er sannfærður um að ef ég hamra bara nógu vel á spurningunum mun hæstv. ráðherra átta sig á því að þeim er beint til hans.

Þeir fóru fram á það að fá lækkun á vöxtum. Grikkir fengu úrlausn sinna mála gegn því að þeir muni einkavæða fyrir gríðarlega fjármuni á næstu árum. Það voru skilyrðin til að fá 1% vaxtalækkun. En Írar fá ekki vaxtalækkun, þó svo að það sé vitað að þeir geti ekki greitt þessi lán, nema þeir hækki skatta á fyrirtæki. Ég veit ekki hvernig þetta samræmist draumalandinu en það er enginn vafi núna, virðulegi forseti, að blessuð evran hjálpar ekki þessum vinaþjóðum okkar. Ég bið þess vegna hv. þm. Magnús Orra Schram að gæta kannski aðeins orða sinna þegar hann úthúðar hér íslensku krónunni og upphefur evruna, og a.m.k. lesa sér aðeins til um stöðu þeirra þjóða sem eru með evruna núna og við berum okkur oft saman við og höfum gert í gegnum tíðina. Þegar hann hefur farið í einn lestur á slíku og gjaldmiðlamálum almennt í heiminum er ég ekki viss um — ef hann hefur lesið það af athygli — að honum líði jafnilla og honum líður núna (Forseti hringir.) yfir því að vera með annan gjaldmiðil en sjálfa evruna.