139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

+innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmaðurinn hefur margsagt í dag að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá 3. febrúar 2009, sem var í sama anda og yfirlýsing ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá hausti 2008, væntanlega gefin í október eða nóvember, hafi í raun og veru ekkert gildi. (Gripið fram í.) Það getur verið skilningur hv. þingmanns en það er að ég tel ekki skilningur innstæðueigenda í þessu landi. (Gripið fram í.) Þeir telja að innstæður þeirra séu með ríkisábyrgð.

Það hefur líka verið mat bankastofnana, Fjármálaeftirlitsins, að svo sé og ekki síður ríkisvaldsins sem ákvað t.d. að fara inn í máttvana fjármálastofnanir eins og t.d. Sparisjóð Keflavíkur og tryggja innstæður þar. Fyrst innstæðueigendur og aðrir leggja þennan skilning í málið stöndum við frammi fyrir vandamálinu sem við erum að reyna að leysa sem þessi freistnivandi. Við þurfum að komast út úr honum með því að búa til nýjan innstæðutryggingarsjóð.

Ég skil hv. þingmann þannig að hann sé ekki hrifinn af ríkisábyrgð sem slíkri. Vill hann með einhverjum hætti verja hagsmuni innstæðueigenda? Telur hann skynsamlegt að til staðar sé einhvers konar bakábyrgð ef bankastofnun fer illa að ráði sínu og innstæðueigendur, hvort sem þeir eiga 2 millj., 5 millj. eða 15 millj. séu með einhverjum hætti varðir fyrir því ef illa er staðið að málum í rekstri viðkomandi fjármálastofnunar? Með hvaða hætti vill hann þá bregðast við því vandamáli? Vill hann koma innstæðueigendum til hjálpar?