139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mikið er vald framkvæmdarvaldsins. Hv. þm. Magnús Orri Schram er farinn að tala með allt öðrum hætti en hann gerði í byrjun umræðunnar í dag og á allt annan veg en hv. þm. Skúli Helgason gerði, þeir voru þó á sama stað og minnisblað hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra, að það væri kerfishrun ef einn af þessum bönkum félli. Við getum bara flett þessu upp, þetta er allt komið í upptöku. En þar segir að ekki sé hægt að bjarga neinum af þessum stóru bönkum, þetta sé ekki hugsað til þess.

Hér talar hv. þingmaður um að þetta sé allt að koma, þessi sameiginlegi sjóður hjá Evrópusambandinu, en gert er ráð fyrir skýrslu frá Evrópusambandinu í lok árs 2014, skýrslu. Hann segir: Hér vantar öll málefnaleg rök hjá þeim sem gagnrýna þetta stórkostlega frumvarp. Nú hef ég tekið þátt í þessum umræðum svo klukkutímum skiptir, bæði í þingsal og í nefndinni, og ég hef ekki fengið málefnaleg rök fyrir því að samþykkja frumvarpið.

Hvaða málefnalegu rök eru fyrir því að hækka tilskipunina úr 20 þús. evrum í 100 þús. evrur? Hvaða málefnalegu rök eru fyrir því að herða á orðalaginu þannig að það sé gert skýrt að ríki beri að sjá til þess að tryggingarsjóður sé fjármagnaður? Hvaða málefnalegu rök eru fyrir því? Eftir það sem á undan er gengið, í ljósi þess vanda sem við Íslendingar erum í út af þessari tilskipun, sem kemur fram í Icesave, þá er þetta lausnin á hinum evrópska vettvangi. Ég vil biðja hv. þingmann um málefnaleg rök fyrir þessum breytingum.