139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:40]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hv. þingmann að leggja mér ekki orð í munn. Hann veit það alveg að ég hef engan áhuga á því að hafa ótakmarkaða ábyrgð á innstæðum. Hann veit að vísu líka að hún er ekki til staðar og það vita það líka allir sem vilja vita að þær innstæður, 1.500 millj. kr., (Gripið fram í.) þá er ríkissjóður ekki í stakk (Gripið fram í.) búinn — virðulegi forseti. Er möguleiki á að fá hæstv. ráðherra kannski upp í ræðustólinn og láta hann tala minna úti í sal?

(Forseti (ÞBack): Hv. þingmaður hefur orðið.)

Það vita allir að ríkissjóður Íslands getur ekki borið það, það bara segir sig sjálft.

Ég spurði um málefnaleg rök fyrir þessum breytingum og hv. þingmaður segir að það sé mjög jákvætt að koma með innstæðutrygginguna á hvern reikning upp á 16 millj. kr., og það er fyrir sparifjáreigendur. Með fullri virðingu þá þekki ég ekki marga sparifjáreigendur, og það eru ekki tölur um það, sem eru með slíkar upphæðir.

Ég spurði líka um herðingu á orðalaginu en hv. þingmaður svaraði því ekki, hann gerir það kannski núna. Ég ætla svo að fara yfir málið í heild sinni hér á eftir og vitna meðal annars í ýmislegt sem ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér.