139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:41]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður staldrar óneitanlega alltaf við það sjónarmið sem kemur fram í málflutningi þeirra sem hvað harðast berjast gegn frumvarpinu: Þeir vilja ekki að frumvarpið verði að veruleika en eru hins vegar ekki fylgjandi ótakmarkaðri ríkisábyrgð. Ég segi: Það er eins gott að þessir aðilar séu ekki í ríkisstjórn. Hvað gerum við þá? Hér er ríkisstjórn þessa lands að leggja til leið út úr þeim vanda sem er til staðar í dag. (Gripið fram í.) Við erum að koma með málefnaleg rök. Það eru hagsmunir skattgreiðenda í þessu landi, það eru hagsmunir okkar, (GÞÞ: Svaraðu fyrirspurninni.) hvort sem við eigum sparifé eða ekki, að við komumst undan þeirri ótakmörkuðu ríkisábyrgð sem hvílir á öllum (GÞÞ: Svaraðu fyrirspurninni.) innstæðum. Hér er leið út úr þeim vanda og það tel ég vera hagsmuni okkar allra. (GÞÞ: Svaraðu fyrirspurninni.) Ég tel mig vera búinn að svara öllum þeim fyrirspurnum sem hv. þingmaður hefur varpað fram. (Gripið fram í.)

Við erum að komast undan (Forseti hringir.) ótakmarkaðri ríkisábygð með því að tiltaka það sérstaklega í lagatexta frumvarpsins að sjóðurinn er ekki undir ríkisábyrgð. Það finnst mér mjög skýrt orðalag og það tókst (Forseti hringir.) að koma því áfram á vettvangi viðskiptanefndar.