139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[17:43]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta viðskn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft hlustað á hv. þm. Magnús Orra Schram og yfirleitt þótt hann vera tiltölulega málefnalegur í sínum flutningi og jafnvel sanngjarn. En ég verð að segja að það sem hann hefur látið flakka í ræðustóli í dag tel ég hvorki málefnalegt né sérstaklega sanngjarnt gagnvart okkur sem erum í minni hluta í viðskiptanefnd í þessu máli.

Ég held að það liggi mjög skýrt fyrir í minnihlutaálitum okkar hvaða tillögur við höfum til úrbóta, bæði á þessu máli og það sem við teljum að nauðsynlegt sé að gera til að hægt sé að koma á einhvers konar innstæðutryggingu á Íslandi. Ég vil benda á að hv. þm. Margrét Tryggvadóttir hefur lagt fram mjög ítarlegt nefndarálit og breytingartillögur í mörgum liðum þar sem hún sér fyrir sér ákveðna leið til að fylgja því eftir sem hún hefur talað fyrir í viðskiptanefnd.

Ég vil líka benda á þær tillögur sem ég kem fram með í nefndaráliti mínu og það verður að segjast að ég varð svolítið forviða að heyra hv. þm. Magnús Orra Schram segja í ræðustól að hann telji t.d. ekki fýsilegt að skoða það að gera forgang innstæðna varanlegan. Ég veit nefnilega ekki betur en þingmannanefndin, sem ég og hv. þingmaður sátum í sameiginlega, hafi ályktað þess efnis að það væri eitt af því sem þyrfti að skoða sem möguleika en ekki afgreiða svona einhliða.

Ég vil líka benda á aðrar tillögur sem koma fram í nefndaráliti mínu til að draga úr þeirri kerfisáhættu sem er þarna undirliggjandi. Þingmaðurinn hefur jafnvel tekið undir sumar af þeim ábendingum sem ég hef komið með eins og það að nauðsynlegt sé að minnka þær fjármálastofnanir sem taka á móti innlánum og fjölga þeim þannig að það sé einhver möguleiki að leyfa þeim að fara í þrot og að innstæðutryggingarsjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar án þess að ríkið þurfi að koma til. Það kom einmitt fram í ræðu þingmannsins áðan að að hans mati væri staðan þannig að þó við samþykkjum þessi lög muni það ekki skipta neinu máli.