139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

uppbygging á Vestfjarðavegi.

439. mál
[18:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Hæstv. forseti. Þetta var mikil eldmessa hjá hv. þm. Merði Árnasyni. (Gripið fram í.) Það er rétt hjá hv. þingmanni í frammíkalli, ég bjóst svo sem ekki við neinu öðru. En það var eitt sem ég tók eftir og ég er algerlega sammála honum um, að tilgangurinn með frumvarpinu er að sjálfsögðu hugsaður til að leysa hina ágætu íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum úr þessari ánauð. Þetta er ekki smíðað, eins og hv. þingmaður orðaði það, fyrir okkur hér. Auðvitað er tilgangurinn sá

Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að auðvitað teldu menn betra ef hægt væri að gera með öðrum hætti það sem búið er að reyna undanfarin ár og það gæti tekist.

Hugsunin á bak við þetta er að sjálfsögðu sú, og það ættu allir að vita sem hafa fylgst eitthvað með búsetuskilyrðum á sunnanverðum Vestfjörðum, að gera þeim íbúum sem þar búa kleift að búa við sambærileg skilyrði og aðrir íbúar í landinu. Það er einungis það sem verið er að hugsa um. Svo geta menn haft sterkar skoðanir á því hvernig skynsamlegast sé að gera það. En mér finnst þeir hv. þingmenn sem hafa lagst gegn þessu máli ekki hafa sýnt fram á eða fært rök fyrir því hvernig þeir mundu bregðast við því, hvernig það yrði gert.

Hv. þm. Mörður Árnason gerði talsvert að umtalsefni sniðgöngu Hæstaréttar. En ég vil bara hvetja hv. þingmann til að lesa niðurstöðu Hæstaréttar og á hverju hún byggðist. Það má eiginlega segja að málið hafi fallið þar á tæknilegu atriði. Síðan mótmæli ég harðlega þeim fullyrðingum sem komu fram í lok máls hv. þingmanns að það hafi verið samþykkt eitthvert níð um hv. þingmenn sem voru fjarstaddir. Það er alls ekki rétt, það er rangt.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson fór efnislega mjög vel yfir málið og mig langar að gera aðra þætti að umtalsefni, þ.e. búsetuskilyrðin á sunnanverðum Vestfjörðum. Ekki þarf að fjölyrða um það að fyrirtæki þar og íbúar sem þar búa búa ekki við sambærileg lífsskilyrði og aðrir þegnar þessa lands. Þetta er nánast eini staðurinn á öllu landinu þar sem á eftir að byggja upp vegakerfið. Það er því miður hin nöturlega staðreynd.

Ekki þarf heldur að ræða lengi þá sögu sem fylgir þessu máli. Unnið hefur verið að því í mörg ár og niðurstaðan var sú að þegar loksins voru komnir peningar var ekki hægt að fara í vegaframkvæmdirnar. Það kom fram úrskurður frá hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Jónínu Bjartmarz, sem mér finnst mjög vandaður úrskurður. Það er ekki þannig að menn ætli að fara að vaða yfir og eyðileggja eitthvert merkilegra landslag en verið er að gera annars staðar. Ég hafna því alfarið. Þær kröfur sem eru settar fram í frumvarpinu eru býsna strangar að mínu mati miðað við þá vegagerð sem verið er að fara í almennt hér á landi og þær eru einmitt í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra á sínum tíma.

Ég verð hins vegar að segja það, virðulegi forseti, að ef farið verður í annað ferli, sem tekur að lágmarki fimm til sjö ár, er óvíst um niðurstöðuna, hver hún verður. Íbúarnir á sunnanverðum Vestfjörðum hafna því algerlega að fara upp á hálsana. Er það vegna þess að íbúar á Vestfjörðum vilja fara að eyðileggja einhverjar hríslur? Nei, það er ekki vegna þess. Það er vegna þess að íbúar á Vestfjörðum þekkja það að fara yfir á hálendið. Svo geta komið einstaklingar úr Reykjavík á fögrum sumardegi og sólað sig þar upp og talið að þetta sé hið besta mál. Því miður er það ekki þannig. Heldur einhver að íbúum á sunnanverðum Vestfjörðum þyki eitthvað minna vænt um umhverfi sitt en öðrum íbúum þessa lands um sitt? Að sjálfsögðu ekki. Það er hins vegar sjálfsögð og eðlileg krafa þess fólks sem býr þarna að búa við sambærileg búsetuskilyrði og aðrir þegnar landsins. Þetta frumvarp er lagt fram til að gera þessum íbúum það kleift að búa við sambærileg skilyrði. Það er tilurð þess að frumvarpið er lagt fram. Mér finnst mjög dapurlegt þegar hv. þingmenn koma hér upp og segja að þetta sé til einhvers heimabrúks fyrir okkur. Það er ekki rétt.

Menn tala um umhverfisvernd. Gott og vel. Ég ber mikla virðingu fyrir umhverfinu, en hefur einhver fjallað um það eða lagt mat á það, og ég verð að viðurkenna að eftir því sem ég fer þessa leið oftar og hugsa meira um það, hvað menn mundu gera ef farið yrði yfir hálsana? Það væru engin smáumhverfisspjöll sem þar yrðu með öllum þeim skeringum og því sem þar þyrfti að vera til að gera veginn öruggan. Ég er ansi hræddur um að það sé ekki alveg sjálfgefið að þau verði minni miðað við þær ströngu reglur sem hér eru. Í raun og veru tel ég að þau verði miklu meiri. Það er dálítið óréttlátt að sitja undir ásökunum um að menn vilji umhverfisspjöll.

Mig langar líka að gera að umtalsefni — eins og ég sagði áðan til að höggva á þennan hnút vegna þess að ég hef áhyggjur af því samfélagi sem þarna er því að fyrirtækin og íbúarnir búa bara við allt önnur skilyrði — að til að mynda er hvorki flogið, mokað né siglt á laugardögum. Fólk sem býr á sunnanverðum Vestfjörðum á í raun og veru að halda sig heima yfir vetrartímann alveg sama hvað kemur upp á. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir benti mér á það hér að það geti bara synt en ég held að það sé ekki fræðilegur möguleiki fyrir þetta ágæta fólk að synda yfir Breiðafjörðinn. Ég held að það væri glapræði og ég vona að íbúar þessa svæðis taki þá ábendingu hv. þingmanns ekki til greina.

Í raun og veru á bara eftir að gefa út þau skilaboð að taka líka rafmagnið af á laugardögum. Það er ekki flóknara en það. Öll aðföng og allt umhverfi fyrirtækja og búsetuskilyrði fólks á þessu svæði eru bara algerlega óásættanleg á 21. öldinni. Ef fyrirtæki með rekstur, til að mynda sjávarútvegsfyrirtæki með rekstur á sunnanverðum Vestfjörðum — mig langar að setja þetta í smásamhengi til að fólk átti sig kannski betur á þessu og þá sér fólk fáránleikann í þessu — kaupir fisk annars staðar á landinu en eins og við vitum er mikið um það að fiskur sé fluttur á milli landshluta. Ef fiskvinnslufyrirtæki á sunnanverðum Vestfjörðum kaupir fisk á Snæfellsnesi eða Suðurnesjum eða hvar sem er og þegar það fiskvinnsluhús fær fiskinn til vinnslu til sín á sunnanverðum Vestfjörðum og segjum sem svo að á sama tíma hafi fiskvinnslufyrirtæki á Þingeyri keypt fisk til að vinna á Þingeyri þá er fiskurinn búinn að fara í gegnum vinnsluna á Þingeyri og er kominn út til Evrópu til neytenda þegar fiskframleiðendur og fiskverkendur á sunnanverðum Vestfjörðum fá sinn fisk til vinnslu. Þannig er staðan núna, hún er ekkert öðruvísi. Það eru í raun og veru áhyggjur íbúanna og okkar þingmanna þessa svæðis að ef slíkt haldi áfram sé stór hætta á að samfélaginu geti blætt út. Það er hin dapurlega staðreynd, því miður.

Ég vék að því í máli mínu áðan að skilyrðin fyrir lagningu þessa vegar eru mjög ströng. En ég hef verið hugsi yfir því, virðulegi forseti, og vil segja það hér, að ef þetta væri gert úti á landsbyggðinni sem er verið að gera hér þar sem massinn býr eins og sagt er, fjöldinn, t.d. ef maður keyrir suður í Hafnarfjörð sér maður stórar hallir langt úti í hrauni og búið að ryðja öllu um koll, leggja fjórar akreinar, en þegar komið er út á land virðast einhvern vegin gilda allt öðruvísi reglur, að manni finnst. Því miður er það með þeim hætti. Það er ekki verið að beita sömu reglum á höfuðborgarsvæðinu, maður hefur þá tilfinningu.

Mig langar líka að vitna í álit, af því að hv. þm. Mörður Árnason gerði að umtalsefni bæði í andsvörum og í ræðu veginn um Eiði–Kjálkafjörð. Það var dálítið merkilegt sem gerðist um daginn. Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar gáfu álit sitt um þennan veg og mig langar að vitna orðrétt í það sem þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Áherslan er því á styttingu vegar og hámarkshraða ásamt öryggi. Þessi áhersla þjónar fyrst og fremst þeim sem vilja komast hratt á milli staða. Eitthvað lengri leið með á köflum minni hámarkshraða getur vel sparað orkunotkun, haft minni áhrif á landslag þar sem gera má ráð fyrir minni öryggissvæðum, lækkað kostnað við vegagerðina og flýtt fyrir framkvæmdum en auk þess eykst öryggi við minni hraða. Þetta ber sérstaklega að skoða þar sem nú er komið bundið slitlag alla leið til Ísafjarðar …“

Þetta er alveg hreint með ólíkindum að í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands skuli vitnað í það þegar er verið að fjalla um veginn um Eiði–Kjálkafjörð að það sé komið bundið slitlag til Ísafjarðar. Hvað kemur það málinu við? Akkúrat ekki neitt. Það er bara önnur leið. Það hefði alveg eins mátt hafa í áliti Náttúrufræðistofnunar að það væri komi bundið slitlag til Selfoss eða til Hveragerðis. Það er jafnfáránlegt að mínu mati, sem segir kannski hvers konar umfjöllun er oft og tíðum um þessi mál.

Ég vil, virðulegi forseti, fá að vitna til þess sem einn ágætismaður sem býr á Patreksfirði, Haukur Már Sigurðsson, íbúi í Vesturbyggð, sagði á fundi þar sem við mættum á þrír þingmenn kjördæmisins, aðrir höfðu ekki tök á að mæta, og tókum við undirskriftum þúsund íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann kvaddi sér hljóðs og sagðist vilja flytja þar eins konar þingsályktunartillögu um þjóðargarð og óskaði eftir því að tillagan yrði flutt í þinginu og ég hyggst gera það. Hún hefst svona, með leyfi forseta:

„Alþingi felur umhverfisráðherra að undirbúa stofnun „þjóðargarðs“ í sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði. Ráðherra lýsi undirbúningi sínum fyrir Alþingi í formi lagafrumvarps eða skýrslu fyrir árslok 2011. Jafnframt verði innanríkisráðherra falið að gera þær breytingar á lögum sem til þarf, til að gera samgöngur að þessum nýja „þjóðargarði“ fullboðlegar þeim Íslendingum sem þjóðargarðinn vilja sækja heim, m.a. með veglagningu um Teigsskóg samkvæmt svokallaðri B-leið og bundnu slitlagi um þau vegstæði sem þegar eru til umfjöllunar og hönnunar hjá Vegagerðinni. Fjármálaráðherra verði falið að undirbúa strax fjármögnun þessara framkvæmda svo hægt verði að ráðast í þær hið allra fyrsta.“

Síðan fylgir greinargerð með þessari tillögu og hún er svohljóðandi:

„Í sveitarfélögunum Vesturbyggð og Tálknafirði býr FÓLK sem er einstakt fyrir margar sakir. Ekkert af þessu fólki er að finna annars staðar á Íslandi, þ.e. aðeins er til eitt eintak af hverjum svona einstaklingi. Þetta FÓLK hefur sýnt einstaka þrautseigju og útsjónarsemi við að lifa af við aðstæður sem m.a. hið opinbera hefur gert afar erfiðar, svo erfiðar að lífsgæði og búsetuskilyrði eru langt undir þeim viðmiðum sem sett eru t.d. á suðvesturhluta landsins. Rétt væri að hefja hið fyrsta rannsókn á hvað veldur þessari útsjónarsemi og þrautseigju ef vera kynni að það kæmi íslensku þjóðinni að gagni í því uppbyggingarstarfi sem nú er í gangi eftir hrun íslenska samfélagsins. Það hrun var ekki af völdum íbúa suðurhluta Vestfjarða heldur þvert á móti.

Náttúra svæðisins er einstök og þarf ekki að telja upp hér hvaða náttúruperlur eru huldar íbúum utan svæðisins vegna þess að á undanförnum áratugum hafa þeir ekki treyst sér til að heimsækja svæðið vegna stórtjóns sem þeir valda á eigum sínum með því að aka ófæra, áratugagamla vegi sem þeir telja óboðlega. Tilgangurinn með tillögu þessari um stofnun „þjóðargarðs“ er að opna fyrir Íslendingum og erlendum gestum þjóðarinnar þær einstöku náttúruperlur sem þeir hafa ekki haft aðgang að, hvort heldur það eru einstakar hríslur í Teigsskógi, hrútaber, bláber eða sjálft Látrabjarg.

Jafnframt er það tilgangur með tillögu þessari að vernda búsetu þess einstaka fólks sem hefur um aldir barist við manngert og ómanngert mótlæti en náð að lifa hamingjusömu lífi og komið kjarnmiklum Íslendingum á legg, sem margir hverjir hafa verið meðal fremstu manna þjóðarinnar á ýmsum sviðum.

Fari sem horfir og opinberir aðilar og einstaka þingmenn haldi áfram að einelta sunnanverða Vestfirði með tillögum sínum gegn samgöngubótum og eðlilegum lífsskilyrðum, leggst byggð hér af innan fárra ára. Þá þurfa homo sapiens sem hafa átt hér heima að leita sér nýrrar búsetu, við önnur skilyrði, sem kannski alls ekki henta þessum einstaka stofni Íslendinga. Líklegast er að stofninn flytti á sunnanvert landið og félli þar inn í fjöldann, óþekkjanlegt innan um „latte-lepjandi“ sjálfskipaða verndardýrlinga sem hafa ekki skilning á því að maðurinn er jú hluti af þeirri náttúru sem hann býr í. Seint verður það sagt um sunnanverða Vestfirði að þar séu sporgöngumenn um eyðileggingu á íslenskri náttúru heldur þvert á móti.“

Virðulegi forseti. Mér finnst lokaorðin í þessari tillögu mjög tilhlýðileg sem segir að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum séu ekki sporgöngumenn um eyðileggingu á íslenskri náttúru heldur þvert á móti. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að þetta frumvarp verði samþykkt til að íbúar á sunnanverðum Vestfjörðum búi við sömu skilyrði (Forseti hringir.) og aðrir íbúar þessa lands.