139. löggjafarþing — 104. fundur,  31. mars 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[19:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. En hann kom ekki nægilega vel inn á þetta undarlega svar sem var að berast á þskj. 1232 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Á grundvelli ákvörðunar FME um að færa innstæður Spron til Arion banka gerði bankinn hins vegar þær kröfur til ríkissjóðs að hann staðfesti ábyrgð ríkisins á þessum innstæðum, eins og á öðrum innstæðum í íslenskum bönkum, ef svo færi að verðmæti veðsettra eigna stæði ekki undir þeim skuldbindingum.“

Svo stendur áfram:

„Þar sem ríkissjóður lýsti yfir því með almennri yfirlýsingu að hann ábyrgðist allar innstæður í íslenskum bönkum, og þar með talið þessar, var það álitamál hvort sérstaklega skyldi tiltaka ábyrgð á þessum innstæðum ….“

Hér er sagt í svari frá hæstv. fjármálaráðherra: „Þar sem ríkissjóður lýsti því yfir með almennri yfirlýsingu …“ Ríkissjóður sjálfur er búinn að lýsa því yfir og samt stendur í stjórnarskránni að það sé bannað að taka ábyrgð á ríkissjóð nema með fjárlögum eða fjáraukalögum.

Þetta var yfirlýsing eins ráðherra og ég vil spyrja hv. þingmann sem er lögfræðingur: Hvernig lítur þetta eiginlega út? Hvað er að gerast hérna? Þetta tengist því máli sem við ræðum hérna vegna þess að forsenda þess að menn standa í þessum æfingum er sú að menn trúa því að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi í dag. Hér er verið að framkvæma ríkisábyrgð sem að mínu mati er bara ekki til. Mér finnst þetta mjög alvarlegt mál. Ég vil því spyrja hv. þingmann, auk þeirrar spurningar hvað sé að gerast, hvort ekki væri rétt að ónáða landsdóm sem er nú að störfum og fá hann til að kanna þetta mál.