139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

kostnaður við Icesave-samninganefnd.

[10:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni, ráðuneytinu bárust því sem næst samtímis fyrirspurnir frá tveimur fjölmiðlum og fyrirspurn frá alþingismanni þar sem m.a. var spurt um kostnað tengdan störfum Icesave-nefndarinnar. Sá kostnaður lá þá ekki fyrir, hann hafði ekki verið tekinn saman og eingöngu er að finna upplýsingar um hann í ríkisbókhaldinu. Fjölmargir úrskurðir hafa gengið um að samtímabókhaldsgögn ríkisins séu ekki háð gildissviði upplýsingalaga. Það gegnir hins vegar öðru um stjórnarskrárvarinn rétt alþingismanna til að beiðast upplýsinga af stjórnvöldum, samanber 53. gr. stjórnarskrárinnar og þess vegna voru það eðlileg viðbrögð að hefjast handa um að taka saman upplýsingar til að hægt væri að svara fyrirspurninni á Alþingi. Sú vinnuregla er vonandi almennt í heiðri höfð að Alþingi og rétti þingmanna til að krefjast upplýsinga er sýnd sú virðing að hafi þeir borið fram fyrirspurn sé henni svarað þar. Til hefur staðið að svara fyrirspurninni eftir því sem upplýsingar lægju fyrir þegar fyrirspurnin kæmist á dagskrá þingsins. Það hefur ekki orðið enn og það er vissulega miður.

Um það var full samstaða meðal forustumanna stjórnmálaflokkanna þegar samningaumleitanir hófust í janúar 2010 að leita til mjög þekkts sérfræðings í alþjóðlegum samningamálum, erlends lögfræðings, og að ekki skyldi spara í kostnaði um sérfræðilega ráðgjöf, bæði innlenda og erlenda, til að undirbyggja starf samninganefndarinnar. Það er alveg ljóst að aðkeypt vinna færra erlendra sérfræðinga sem selja sig út samkvæmt töxtum er mjög dýr þannig að þar er um háar fjárhæðir að ræða sem frekar mælast í hundruðum milljóna en tugum. Varðandi innlendan kostnað er hann hins vegar mjög hóflegur og í öllum tilvikum er byggt á gjaldskrám, reynt að semja um afslætti og síðan borgað í samræmi við vinnutímaskýrslur (Forseti hringir.) sem eru yfirfarnar. Kostnaðurinn er því fullkomlega eðlilegur í ljósi þeirrar aðferðar sem valin var, er sá sem hann er samkvæmt viðeigandi gjaldskrám. (Forseti hringir.) Það mun allt verða upplýst og er einfaldlega algerlega í samræmi við þá aðferð sem (Forseti hringir.) valin hefur verið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur ræðumenn til að virða tímamörk.)