139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldsetning þjóðarbúsins.

[10:40]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Við áttum þess kost í fjárlaganefnd Alþingis í gær að fá hæstv. fjármálaráðherra til viðræðu um nýja þjóðhagsspá Hagstofunnar og áhrif hennar á fjárlög. Eftir þá umræðu er mér ofarlega í huga að það sé út af fyrir sig ágætt að fá hagspá sem gerir ráð fyrir vexti landsframleiðslunnar og ef við látum hjá líða að minnast á hversu ábyggileg þessi spá er verðum við að hafa í huga að við greiðum ekki af erlendum skuldum þjóðarbúsins með vergri landsframleiðslu.

Þegar það er haft í huga og sú staðreynd að íslenskt þjóðarbú skuldar um 4.300 milljarða má ætla að vaxtagreiðslur af þessari fjárhæð séu um 170 milljarðar á ári í erlendum gjaldeyri. Þá skulum við líka hafa hugfast að afgangur á viðskiptum við útlönd hefur á síðustu árum aldrei verið meiri en á síðasta ári og þá nam hann 160 milljörðum kr. Með öðrum orðum vantar okkur 10 milljarða til að eiga fyrir vöxtum af erlendum skuldum þjóðarinnar. Þetta er alvarleg staða því að þá eigum við eftir að ætla fyrir afborgunum og enn fremur útgjöldum í gjaldeyri ef eitthvað fer að rofa til sem allir eru að bíða eftir.

Af þessu tilefni spyr ég hæstv. fjármálaráðherra um álit hans og mat á því hversu mikið þol þjóðarbúsins sé gagnvart erlendum skuldum miðað við eðlilegan aðgang að viðskiptum við útlönd. Hversu mikla skuldsetningu telur hæstv. ráðherra þjóðarbúið þola?