139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

evran og efnahagskreppan.

[10:52]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Vandi íslenskra heimila felst í hækkun lána sem stafar af hruni krónunnar. Vandi íslenskra fyrirtækja sem eiga ekki rekstrarhæfar forsendur stafar af hruni krónunnar og ekki af bankahruni eða neinu öðru. (Gripið fram í: Vertu ekki …) Það er hin dapurlega staðreynd sem talsmenn íslenskrar krónu, haftakrónunnar, verða að horfast í augu við. (Gripið fram í: Er það … núna?)

Það sem við þurfum á að halda er trúverðug leið til að losa um gjaldeyrishöftin svo íslenskt efnahagslíf geti aftur notið þess nauðsynlega súrefnis sem felst í aðgangi að alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum og að íslenskt viðskiptalíf verði ekki bundið á bak við höft til áratuga eins og raunveruleg hætta er á. [Kliður í þingsal.] Besta leiðin til að tryggja að svo verði ekki er að við tökum upp evruna með aðild að Evrópusambandinu. Umgjörð evrunnar þarf vissulega að styrkjast og menn munu örugglega læra af ýmsum þeim mistökum sem orðið hafa í þessari fjármálakreppu innan Evrópusambandsins (Forseti hringir.) rétt eins og utan þess.