139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

lækkun húshitunarkostnaðar og jöfnun flutningskostnaðar.

[10:56]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Við báðir, ég og hv. þingmaður, erum búnir að vera lengi á þingi og ég leyfi mér að fullyrða að allan þann tíma höfum við rætt um vandamál landsbyggðarinnar, sérstaklega hvað varðar flutningskostnað og sömuleiðis um mikinn kostnað við kyndingu húsnæðis á köldum svæðum. Þar hefur þróunin verið óhagstæð en hún á sér langa sögu og menn hafa margir hverjir haft mjög langan tíma til að grípa til aðgerða í þeim málum. Tillögur um mótvægisaðgerðir vegna hækkandi flutningskostnaðar hafa legið í skúffum ráðuneyta í 10–15 ár. Fyrir alþingiskosningar 2003 kom t.d. út mikil skýrsla og þá lofuðu menn aðgerðum á því sviði í kjölfar þeirra kosninga sem enn hafa ekki litið dagsins ljós.

Ég vænti þess að hv. þingmaður, ættaður af Vestfjörðum, fagni því að ríkisstjórnin fór þangað og hélt þar fund, bauð heimamönnum upp á samstarf og vildi fullvissa þá með heimsókn sinni og þeim aðgerðum sem þar voru gerðar tillögur um og ganga síðan til Alþingis að við vildum taka á vandamálum Vestfjarða með heimamönnum, að þeir væru ekki einir og yfirgefnir og gleymdir með sín vandamál.

Húshitunarkostnað og flutningskostnað bar mikið á góma á þessum fundum, sérstaklega á fundi með sveitarstjórnarmönnum, og við skýrðum frá þeirri vinnu sem í gangi er í báðum tilvikum. Iðnaðarráðuneytið og fjármálaráðuneytið ætla sérstaklega að skoða saman húshitunarkostnaðinn tengdan við dreifingarkostnað raforku í strjálbýli þar sem dreifbýlisgjaldskrá gildir. Sömuleiðis hafa menn vegna hækkandi olíuverðs tekið til við það að nýju að skoða sérstaklega hvort viðbrögð við því ættu m.a. að vera fólgin í sértækum mótvægisaðgerðum til að draga úr því að hækkandi orkuverð leiði út í enn hærri flutningskostnað. Inni í því er allt til skoðunar, bæði sértækar aðgerðir til að draga úr álögum á flutningsstarfsemina sem slíka, mögulegar endurgreiðslur samkvæmt (Forseti hringir.) eldri hugmyndum á flutningskostnaði framleiðslufyrirtækja, og strandsiglingar.