139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

skuldaúrvinnsla fyrirtækja og heimila.

[11:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrst varðandi útreikninga gengisbundnu lánanna minni ég á að í lögunum sem samþykkt voru í desember freistuðum við þess að setja þá almennu reglu sem ráða mátti af dómum Hæstaréttar um endurreikning gengistryggðra lána í lög. Við gerðum það til að reyna að flýta uppgjörum þannig að hvert og eitt heimili í landinu þyrfti ekki að bíða niðurstöðu Hæstaréttar í máli sínu. Við töldum okkur hins vegar ekki mögulegt að ganga lengra en fordæmi Hæstaréttar kvað á um. Nú hafa komið fram ýmsir menn og sumir hverjir býsna stórorðir og efast um útreiknings- og endurreikningsforsendurnar. Allt gott um það, en við getum sem löggjafi gengið lengra en Hæstiréttur taldi sér fært að ganga. (Gripið fram í: Nú?) Við innleiddum þá reiknireglu og endurreikningsreglu sem Hæstiréttur setti fram í dómunum og menn verða þá að eiga það við Hæstarétt ef þeir eru ósáttir við þær reiknireglur.

Umboðsmaður skuldara hefur samkvæmt lögum það verkefni að fylgjast með endurreikningi lánanna. Hann mun hafa farið yfir býsna mörg lán, hundruð lána samkvæmt upplýsingum embættisins á heimasíðu þess, en ekki fundið dæmi um ranga útreikninga. Umboðsmaður mun ganga í frekari úttekt á því núna með Raunvísindastofnun Háskóla Íslands þannig að málin eiga að skýrast vel.

Varðandi úrvinnslu lána fyrirtækjanna er það lengra mál en svo að ég komist til að svara því í þessu andsvari en ég vonast til að gera það þegar ég fæ tækifæri á að stíga aftur í pontu.