139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

tekjuskattur.

300. mál
[11:16]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. efnahags- og skattanefnd, eða þeim hv. þingmönnum sem standa að þessum breytingartillögum. Ég er afskaplega ánægður að heyra það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kynnti áðan. Ég tel mikilvægt að menn setji sig vel inn í þessi mál og rugli þessu ekki saman við þær einkatryggingar sem eru í gildi í þeim löndum sem viðhafa slíkt, t.d. í Bandaríkjunum, þetta hefur ekkert með það að gera. Íslendingar eru almennt minna persónutryggðir en aðrar þjóðir og þá er ég að bera okkur saman við þær þjóðir sem við alla jafna berum okkur saman við eins og Norðurlandaþjóðir. Það er afskaplega æskilegt að fólk hafi í eitthvað að hlaupa þegar jafnerfið mál koma upp og alvarlegir sjúkdómar eða dauðsföll fyrirvinnu. Við eigum að ýta undir slíkt en ekki að tala það niður.