139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

stjórn vatnamála.

298. mál
[11:20]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Við erum að klára vatnamálafrumvarpið og gera það að lögum. Það hefur verið töluvert verkefni í hinni háu umhverfisnefnd sem flytur við það öll, ásamt formanni sínum, nokkrar breytingartillögur sem eru tæknilegs eðlis og óþarfi að tíunda hér, enda skýrðar í umræðunni á sínum tíma.

Þar að auki hefur varaformaður nefndarinnar verið svo hugnanlegur að koma með málfarslegar breytingartillögur sem nefndin hefur að vísu ekki fallist á og sú breytingartillaga er við frumvarpstextann upphaflega frá hæstv. umhverfisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Um þessa tillögu er það að segja að stuðningssonur minn, sem er 6 ára, hefur fyrir vana að halda alltaf með liðinu sem vinnur og spyr iðulega um það fyrir fram, þegar við horfum saman á íþróttir í sjónvarpi. Ég er að hugsa um að gera það líka, því annars vegar er Álfheiður Ingadóttir og hins vegar Svandís Svavarsdóttir, afgangurinn af umhverfisnefnd, Halldór Halldórsson prófessor og Einar B. Pálsson verkfræðingur. Og þá eru úrslitin, held ég, nokkuð ljós.