139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég trúi ekki að hæstv. innanríkisráðherra sé tilbúinn að taka þátt í þeim ljóta leik sem ríkisstjórnin leikur oft og tíðum, að skipta þjóðinni í tvennt, ala á óvild og öfund, tortryggni og ósætti. Mér heyrðist ráðherrann heldur ekki á þeim buxunum, mér heyrðist hann lýsa því yfir að hér yrði a.m.k. engu breytt til ársins 2019. Það hefur verið settur á laggirnar starfshópur um starfsleyfisveitingu innanríkisráðherrans með aðkomu menntamálaráðherra sem þessi mál heyra næstum því öll undir.

Af því að umræðan er opnuð, og ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni fyrir það, er kannski rétt að ræða allan þennan pakka og setja hann upp á borð, þ.e. spilakassa Landsbjargar, Rauða krossins og SÁÁ annars vegar og hins vegar þessa einkaleyfisspilakassa Happdrættis Háskóla Íslands sem ríkið veitir einkaleyfi á. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvernig því máli sé háttað. Er það rétt að stór hluti veltunnar fari úr landi til aðila sem eru með leigusamninga þar um? Er það líka rétt að í framkvæmdasjóð Háskóla Íslands séu komnir 1,5 milljarðar vegna þessarar fjárhæðar? Þar sem ríkisstjórnin skirrtist ekki við að fara í Framkvæmdasjóð aldraðra til að taka til reksturs spyr ég hvort ríkisstjórninni og innanríkisráðherra hafi dottið í hug að nota hluta af þeim fjármunum sem þarna eru til reksturs háskólans á mjög erfiðum tímum, krepputímum? Þetta gera heimili, fyrirtæki og sveitarfélög, ganga á eigið fé til að treysta reksturinn.

Ég held að það væri áhugavert að fara yfir það, jafnvel þó að hæstv. ráðherra hafi áður (Forseti hringir.) talað gegn spilavítum í ræðum sínum, með hvaða hætti við ætlum að hafa stjórn á þessum gráa markaði þar sem þeir fjármunir sannarlega renna út úr samfélaginu. (Forseti hringir.) Viljum við skoða það?