139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að þessi umræða sé tekin upp á Alþingi eftir að hún var opnuð á menningarhátíð DV , að mér skilst, þar sem hæstv. innanríkisráðherra talaði um möguleika á að menning og listir fengju hluta af Lottótekjunum. Það tel ég ekki koma til greina og er algjörlega andvígur þeirri hugmynd. Ég tel reyndar að hana þurfi ekkert að kanna, jafnvel þó að lögin gildi ekki nema til 2019. Þetta er bara ekkert á dagskrá. Alþingi hefur samþykkt lög þar sem Öryrkjabandalagið, ÍSÍ og UMFÍ eiga þetta, Lottóið er þeirra. Um það er sátt og hún verður ekkert rofin með því að taka eitthvað annað upp.

Menning og listir fá peninga frá ýmsum öðrum stöðum og þetta er ákveðin sátt. Þess vegna ítreka ég að ég skil ekki af hverju verið er að rugga þessum bát. Frá því að Lottóið hóf göngu sína hefur það styrkt mjög allt æskulýðs- og íþróttastarf, hefur styrkt mjög starfsemi Öryrkjabandalagsins og verið mikil lyftistöng fyrir þau. Mjög góð ákvörðun var tekin á sínum tíma þegar þessi lög voru sett.

Við skulum líka hafa í huga þá mikilvægu starfsemi sem þau reka. Nú kann ég ekki að segja hvað þau hafa af peningum út úr þessu í dag, hygg að það hafi eitthvað minnkað á síðustu árum eins og ýmislegt annað í lýðveldinu Íslandi eftir hið mikla hrun. En þarna er ákveðin sátt sem ber að halda og virða. Íþróttir eru nefnilega menning líka, íþróttamenningin er hluti af menningarsamfélaginu Íslandi.