139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:45]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Tvenn samtök sem við störfum með í ráðuneyti íþróttamála, mennta og menningar og þar með íþróttamála, eru þátttakendur í Íslenskri getspá sem eru auðvitað Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Mig langar að gera það að umtalsefni að þessi grasrótarsamtök, þessi frjálsu félagasamtök, eru alveg feikilega öflug hvort um sig með ríflega 100 þúsund félagsmenn í fjölmörgum félögum og skipta miklu máli við uppbyggingu íþróttastarfs í landinu. Þá er ég ekki bara að tala um afreksíþróttastarf heldur líka starfið sem við ræktum með börnum og ungmennum.

Við Íslendingar höfum átt því láni að fagna að hér er gríðarlega góð þátttaka í íþróttum, hvort sem er almenningsíþróttum eða keppnisíþróttum, sem ég held að skipti miklu máli fyrir samfélagið. Þarflaust er að ræða lengi, og ekki á mínu sérsviði, mikilvæga starfsemi Öryrkjabandalagsins en hún hefur komið hér við sögu og á sínum tíma þegar þetta fyrirkomulag var ákveðið tók það dálítinn tíma, á 9. áratugnum, að ná þeirri sátt sem þá náðist um að þessi þrenn samtök tækju þátt og ættu aðild að Íslenskri getspá.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við munum eftir inntaki þessara samtaka þegar við förum í þessa umræðu. Öll byggja þau sína starfsemi að stóru leyti á sjálfboðaliðum, fólki sem leggur vinnu sína fram til að vinna að góðum markmiðum og það verður auðvitað að vera inni í myndinni. Við erum að sjálfsögðu tilbúin til samstarfs við hæstv. innanríkisráðherra, sem reifaði þetta mál vel áðan, í þeim starfshópi sem mun skoða og kortleggja þessi mál en ég ítreka að við höfum verið ánægð með þetta fyrirkomulag hingað til af því að það hefur síðan áhrif á fjárveitingar ríkisins almennt til íþróttamála annars vegar og lista og menningar hins vegar. Allir hér inni vita að ég er mikill talsmaður lista og menningar og eflingar skapandi greina og legg því líka áherslu á að við stillum ekki þessum málaflokkum upp sem andstæðum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þeir eru allir mjög mikilvægir hver í sínu og ég ítreka að við höfum verið ánægð með þetta fyrirkomulag en við munum að sjálfsögðu taka þátt í (Forseti hringir.) kortlagningunni og skoðuninni sem hæstv. innanríkisráðherra hefur boðað.