139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:47]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tek það strax fram í þessari umræðu svo það sé á hreinu að ég er mótfallinn því að tekjum af Lottói verði varið til menningarmála. Ég er þeirrar skoðunar að íþróttahreyfingin, UMFÍ og Öryrkjabandalagið eigi að sitja að þessum tekjum eins og verið hefur. Þetta er mín skoðun á þessu álitamáli og það er ekki til umræðu að henni verði breytt. Með því er ég ekki að kasta neinni rýrð á menningarstarfsemina í landinu, síður en svo, (Gripið fram í.) en það verður að líta til þess að fjárframlög ríkisins til íþrótta-, æskulýðs- og útivistarmála eru í kringum 500 milljónir. Á móti eru framlög til menningarmála á síðustu fjárlögum um 6 þús. milljónir, 6 milljarðar kr. Þar er ekki inni tónlistarhúsið mikla sem er ekki íþróttahöll heldur framlag til að þjóna listalífinu í landinu. Ríkið gerir mjög vel við menningarlífið.

Ég held að tekjur þessara samtaka af Lottóinu séu almennt ofmetnar í opinberri umræðu en þær eru rosalega mikilvægar. Íþróttahreyfingin er ekkert of sæl af sínum tekjum og flestir sem starfa að íþrótta- og æskulýðsmálum gera það í sjálfboðavinnu. Það segir sig sjálft að þótt menn vilji spara verða laun sjálfboðaliða ekki lækkuð. Í mínum huga eru íþróttir menning ekkert síður en önnur menning sem þjóðin fylgist með og er þátttakandi í. Við eigum að reyna að efla íþrótta- og ungmennafélagastarf en ekki gera félögunum erfiðara fyrir. Ég tel (Forseti hringir.) núverandi fyrirkomulag gott og algjöran óþarfa að breyta því sem gott er.