139. löggjafarþing — 105. fundur,  7. apr. 2011.

endurskoðun á tekjum af Lottói.

[11:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög mikilvægt að óvissu um þetta mál sé eytt, að ríkisstjórnin standi ekki hér og skapi óvissu um tekjur, stjórnsýslu og það hvernig Öryrkjabandalag Íslands, Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands geti rekið starfsemi sína. Um 60% af tekjum af Lottói fara til ÍSÍ og UMFÍ og 40% til Öryrkjabandalagsins. Þetta eru gríðarlega mikilvægar tekjur fyrir þessi samtök öllsömul. Við verðum að gera okkur grein fyrir því.

Af því sem Ungmennafélag Íslands fær í sinn hlut fara um 90% til grasrótarstarfsemi. Það er mjög mikilvægt. Í skýrslu sem unnin var 2004, eftir því sem mér er tjáð, er metið að um 8 milljarðar kr. skapist og séu afleiðing af sjálfboðavinnustörfum í kringum Ungmennafélag Íslands. Það er mjög mikilvægt að við tölum skýrt í þessu máli og ég er algjörlega á móti því að við krukkum í þetta og breytum þessu með einhverjum hætti. Ástæðan er einfaldlega sú að að mínu viti ættum við að standa hér núna og ræða það hvernig við förum að því að auka fjármuni til íþrótta- og æskulýðsstarfs og líka til Öryrkjabandalags Íslands til að þessi mikilvægu félög og mikilvægu aðilar geti stundað þá starfsemi sem þeir gera.

Við verðum líka að horfa til þess að þessir aðilar eru allir að spara ríkinu stórfé á sviði forvarna á margan hátt. Það eru ekki bara forvarnir varðandi fíkniefni og slíkt, heldur einnig í heilsu og allri umgjörð í kringum líf almennings og þessa fólks. Ég held að það sé mjög mikilvægt, frú forseti, að ríkisstjórnin stígi fram fyrir skjöldu og segir: Við finnum að það er lítil samstaða um að skoða þetta mál og því munum við leggja það til hliðar. Við ætlum að tryggja að Íþróttasamband Íslands, Öryrkjabandalagið og UMFÍ fái áfram notið þeirra tekna (Forseti hringir.) sem eru þeim svo mikilvægar.