139. löggjafarþing — 106. fundur,  7. apr. 2011.

fjármálafyrirtæki.

659. mál
[12:17]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég láta koma fram að þó að ég sé ekki á meirihlutaáliti frá viðskiptanefnd um þetta frumvarp mun ég ekki leggjast gegn því að málið fari hratt og örugglega í gegnum þingið.

Hins vegar gerði ég grein fyrir afstöðu minni í nefndinni, að ég teldi lögin mjög skýr og fyrir lægju fordæmi á Íslandi sem byggðu einmitt á þeim og tækju fram að íslenskir dómstólar teldu að þessi lög væru nægilega skýr til að hægt væri að dæma eftir þeim. Mín afstaða byggist fyrst og fremst á því hvernig innlendu tilskipuninni var háttað. Eins og hefur komið fram í orðum hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, varaformanns viðskiptanefndar, þá held ég að megintilgangurinn sé einmitt að nota þetta sem lagaskýringargagn fyrir framtíðina þannig að ekki verði neinn vafi eins og virðist hafa komið upp fyrir þessum breska dómstóli. Mitt mat er hins vegar að löggjöfin sé skýr og geri ég athugasemd við niðurstöðu breska dómstólsins og sérstaklega að þar sé horft til fyrsta dómstigs. Málið á eftir að fara lengra en ég tel að við Íslendingar höfum lagt okkur fram við að innleiða tilskipunina eins rétt og mögulega var hægt.

Það mun ekki skaða að mínu mati að gera þessa breytingu en ég tel ekki ástæðu til að styðja hana sérstaklega vegna þess að lögin taka að mínu mati þegar af öll tvímæli, þau eru skýr. Hér er því komið enn eitt gagnið sem styður frekar mat mitt og nánast okkar allra sem sitjum á Alþingi varðandi túlkunina á þessari löggjöf.