139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir þessa fyrirspurn. Hann kemur inn á mikilvægt atriði sem er einmitt traustið sem þarf að ríkja á milli stjórnvalda annars vegar og fjölmiðla hins vegar, eða öllu heldur traust fjölmiðlastéttarinnar á því að þessi löggjöf sé bær til þess að bæta umhverfi fjölmiðlunar í landinu. Ég get staðfest að nefndin hefur þegar rætt þetta atriði, að Blaðamannafélag Íslands fái rétt til að tilnefna fulltrúa í nefndina, og á von á því að það verði tekið til afgreiðslu á fundi nefndarinnar milli 2. og 3. umr.

Ég er sammála hv. þingmanni um að það sé afar mikilvægt atriði til að tryggja að ekki skapist tortryggni að í nefndinni séu einstaklingar sem þekkja vel starfsumhverfi fjölmiðla sem ekki er hægt að læra af bók. Menn þurfa að hafa starfað í ritstjórnum eða á fréttastofum til að þekkja nákvæmlega hvernig hlutirnir ganga þar fyrir sig. Það er mjög mikilvægt atriði sem ég legg þunga áherslu á að verði tekið til nánari skoðunar og vonandi koma þá frekari breytingartillögur við lokaafgreiðslu málsins.