139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[13:03]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra fyrir þessa mikilvægu ábendingu því að hún skiptir sannarlega máli í samfélagsumræðunni. Við höfum dæmi um það í Fréttablaðinu í morgun. Þar er vísað í erindi sem menntamálanefnd barst frá einu af fjölmiðlafyrirtækjunum í landinu sem einmitt ber með sér það sem hæstv. ráðherra benti á, að það er ákveðinn misskilningur í gangi um hvar hinn rétti vettvangur sé til að taka á þeim breytingum sem hæstv. ráðherra vakti máls á. Má jafnvel benda á að þegar hefur verið sýnd viðleitni af hálfu löggjafans til að taka á stöðu Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í samhengi við lögin um Ríkisútvarpið. Við þekkjum það frá liðnum árum að ákveðnar hugmyndir fóru til umfjöllunar í menntamálanefnd og er fullkomlega eðlilegt að því fordæmi sé fylgt í þessu efni.