139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur fyrir málefnalega og góða ræðu og margar gagnlegar ábendingar sem koma fram í áliti minni hluta um þetta mikla frumvarp. Það er of stuttur tími til að fara í gegnum öll þau atriði sem hv. þingmaður nefndi hér í máli sínu en ég vil nefna nokkur atriði og sérstaklega þakka fyrir þá ábendingu sem kemur fram í áliti minni hluta um ritstjórnarlega sjálfstæðið og mikilvægi þess að þar sé gætt viðurlaga við vanefndum á því að setja reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem ég eyddi nokkrum tíma í að fara yfir.

Ég tel að þetta sé mikilvæg ábending sem nefndin hefur reyndar þegar tekið til umfjöllunar eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég geri mér góðar vonir um að góð samstaða náist í nefndinni milli 2. og 3. umr. að gera þarna á bragarbót til að styrkja enn frekar þetta afar mikilvæga ákvæði. Það er eðlilegt að það séu skiptar skoðanir um einstök atriði, ég held reyndar að það sé mikill samhljómur með meiri hluta og minni hluta um mikilvægi þeirra atriða sem komu fram í máli hv. þingmanns, sérstaklega um samkeppnisþáttinn. Það er deilt um aðferðafræðina að einhverju leyti, hvort það eigi að taka á þeim atriðum sem tengjast veru Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði í þessu frumvarpi eða í lögum um RÚV. Hefðin segir okkur að slíkt hafi verið gert í sérlögum um Ríkisútvarpið og það er það sem stendur til. Miðað við nýjustu fyrirætlanir er vonast til þess að þetta frumvarp verði tilbúið í næsta mánuði og verði þá lagt fram á þessu þingi til kynningar.

Ég ítreka þakkir til hv. þingmanns og minni hlutans fyrir góða vinnu við gerð þessa frumvarps og tek undir þau orð að hér hafi þetta frumvarp tekið breytingum til bóta.