139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég geri athugasemd við dagskrá þingsins í dag. Við erum að ræða fjölmiðlalög, mjög mikilvæga löggjöf sem við gætum verið sammála um en erum því miður allt of ósammála um, mikilvæg löggjöf sem snertir samfélag okkar Íslendinga og hefur gert um áraraðir.

Það sem ég vil leggja áherslu á, frú forseti, er að í dag er aðalfundur Samtaka atvinnulífsins og ársfundur Seðlabanka Íslands. Þingmönnum er boðið á þessa viðburði. Það sama gildir um þingmenn sem tilheyra Suðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi, við erum að fara á fund núna klukkan þrjú með innanríkisráðherra um samgöngumál, mikilvæg málefni suðvesturhornsins. Ég fer þess á leit við frú forseta að dagskránni verði breytt eða hlé gert á fundinum þar til þessum fundum er lokið. Ég tel mikilvægt að þingmenn fái tækifæri til að sækja þessa mikilvægu fundi sem eru á dagskrá (Forseti hringir.) í dag og að þessari brýnu umræðu um fjölmiðlalöggjöfina verði því frestað að sinni.